Margir hafa spurt mig hvað ég borði yfir hátíðirnar og hvernig ég haga mér í kringum allar freistingarnar, súkkulaðið, reykta kjötið og fleira gúmmelaði sem er á boðstólnum. 

Í mörg ár átti ég mjög erfitt með mig yfir jólin, ég hámaði í mig konfekti og smákökum, borðaði yfir mig af jólamat og sat eftir útþanin, með bjúg og oftast en ekki með 2-4 aukakíló eftir hátíðirnar. 

Síðustu ár hef ég reynt að breyta aðeins hvernig ég nálgast þessa hátíð því ég nenni ekki alltaf að byrja nýja árið með svekkelsi, orkuleysi og pirringi útí sjálfan mig að hafa misst svona tökin.

Í dag legg ég áherslu á að:

 

1. Tyggja matinn betur

Allt of oft gúffum við í okkur án þess að tyggja matinn almennilega. Það tekur heilan um 20 mínútur að gefa okkur skilaboð um að við séum södd. Þannig að með því að borða alltof hratt eigum við það til að borða yfir okkur án þess að gera okkur grein fyrir því fyrr en alltof seint. Fáðu þér stórt vatnsglas 10 mínútum fyrir hverja stóra máltíð, þá mun heilinn láta þig vita fyrr að þú hefur fengið nóg. Tyggðu bitann a.m.k. 15-20 sinnum áður en þú kyngir og drekktu einnig annað vatnsglas með matnum. Þannig minnkar þú líkurnar á að borða yfir þig.

 

2. Passa að verða ekki of svöng

Ef maður er orðin of svangur þegar maður sest við matarborðið á maður það til að háma í sig í flýti og borða svakalega mikið eins og gráðugur úlfur. Til þess að koma í veg fyrir það reyni ég að grípa mér hollara snarl eins og mandarínu, banana, möndlur, grænan boost, hollar hnetu- og ávaxtastangir sem millimál og passa að ég sé ekki of svöng þegar kemur að matnum. 

 

3. Fókusa á félagsskapinn

Einu sinni var ég bara að einbeita mér að matnum og gleymdi að njóta samverustundar með fjölskyldu og vinum. Núna reyni ég að vera meðvituð um að njóta þess að vera saman og skapa góðar minningar í stað þess að stara bara á matardiskinn. 

 

4. Njóta litlu hlutanna

Að fá sér góðan konfektmola og kaffibolla er voðalega huggulega. Munum að njóta hvers bita og gefa okkar tíma og njóta í núvitund. Ekki gleypa í okkur 10 mola og sitja eftir með magaverk. Það gerir engum gott.

 

5. Velja betur á diskinn

Ég set yfirleitt meira af grænmeti og vel frekar hollari kosti sem eru í boði. Mér finnst gott að miða við að setja amk hálfan disk af grænmeti, salati eða þessu sem er aðeins „léttara“ í maga og svo minna af þessu sem er aðeins „þyngra“ eins og kjöt, kartöflur og rjómasósur. Einnig þarf maður ekki að kúfylla diskinn sinn, maginn á þér er ca eins og hnefinn þinn þannig þú þarft ekki að borða eins mikið og þú heldur til þess að upplifa seddu. Notastu við skref 1 og 2 til þess að vera meðvitaðri um skammtastærðirnar þínar. 

 

6. Halda hreyfingunni inni

Ég reyni að æfa a.m.k 3-4 sinnum í viku yfir hátíðirnar og tekst það með því að notast við stuttar heimaæfingar sem taka ekki of mikinn tíma.
Ekki sleppa því að hreyfa líkamann yfir hátíðirnar, þér mun líða svo miklu betur að ná inn amk 20 mín af HiiT æfingum eða annarri hreyfingu. 

 

7. Sleppa því að drekka sykurinn

Ég er alveg gegn boðum og bönnum en er þetta eitt af því sem ég hef algjörlega sleppt og það er að drekka sykrað gos. Mér finnst það ekkert mál og finnst lang best að fá mér sódavatn í staðinn. Að drekka sykurinn er eitt það versta sem þú gerir þannig bara með því að taka það út ertu ekki bara að sleppa við helling af óþarfa kalóríum heldur líka vernda heilsuna þína. Oft er þetta líka bara vani og þegar maður prófar að drekka gos aftur eftir langan tíma þá finnur maður hvað þetta er mikil leðja og alls ekki eins gott að manni minnti.

 

8. Banna mér ekki neitt 

Ég neita mér ekki um neitt, eins og ég kom inná að ofan þá sleppi ég gosi, en ekki af því að ég “þarf þess” eða af því “það er bannað” heldur af því ég vel það og mig langar til þess að sleppa því. Því ég veit að mér líður svo miklu betur án þess og ég er að velja betur fyrir líkama minn og heilsu með því að sleppa því. Þannig reyni ég að hugsa allt mitt matarval. 

Ég fæ mér allt sem ég vil, en það sem ég vil líka er að hafa orku og líða vel í líkamanum og ég veit að þetta helst allt saman í hendur, þannig ég hef það að leiðarljósi yfir hátíðirnar. 

Ég mæli með að þú gerir það sem þú ert ánægð með, án allra öfga. Munum að njóta og passa að ofhugsa ekki hlutina. 

Þú ert ekki að fara eyðileggja neitt með því að fara aðeins út af þínum hefðbundnu matarvenjum í nokkra daga, en það sem skiptir aðal málinu er að nokkrir dagar breytist ekki í marga mánuði og þú notir heilbrigða skynsemi þegar kemur að skammtastærðum og sykurmagni 🙂

Þekkir þú einhvern sem hefði gott af því að heyra þessi hollráð? Deildu endilega með viðkomandi 🙂 

Gleðileg jól! Eigðu yndislegar stundir með fjölskyldu og vinum 

 

Heilsukveðja

Sara Barðdal
ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi