Í síðustu viku deildi ég með þér að ég ætlaði að senda þér sýnishorn af því sem ég var að gera til þess að hreinsa til í mataræðinu mínu eftir páskaferðina mína. Ég elska að skipuleggja daginn þannig að ég þurfi að elda sem minnst og geti því nýtt afganga aftur og aftur. Ég bjó því til dásamlegan pottrétt sem entist mér og fjölskyldunni í 5 máltíðir (sem aðalréttur). Tíminn sem ég eyddi þessa 3 daga í eldhúsinu var því afar stuttur.

Mér finnst mjög gaman að nýta hráefnið vel sem ég á inní ísskáp og ég henti því sem mér fannst passa saman í pott og það kom svona dásamlega út, en það var eftirfarandi:

.

Dásamlegur pottréttur

  • 2 litlar sætar kartöflur (1 stór)
  • 1 rauð paprika
  • 1 laukur
  • 2 hvitlauksgeirar
  • 1 bolli niðurskorið hvítkál
  • 1-2 lúkur niðurskorið brokkolí
  • 1-2 gulrætur (2 litlar)
  • 2 dósir niðurskornir tómatar
  • 2 dósir baunir (aduki eða svartar t.d)
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 1 tsk chilli duft
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • örlítið cayenne pipar
  • salt og pipar eftir smekk
  • Smá vatn (1/2 – 1 bolli)
  • 1 bolli kínóa (sjóða á móti 2 bollum vatni) – nauðsynlegt er að vera búin að leyfa því að liggja í vatni og skola vel áður en þú eldar.

 

  1. Skerðu niður grænmetið og settu í stóran pott. Byrjaðu á að mýkja hvítlaukinn og laukinn í nokkrar mínútur og settu síðan restina ofaní pottinn.
  2. Settu tómatana úr dósinni, vatnið og kryddið saman við og leyfðu suðunni að koma upp.
  3. Settu kínóað í vatn og stilltu á hæsta hita til þess að fá suðuna upp, þegar hún er komin lækkaðu þá niður og leyfðu að malla í ca 15 mín eða þangað til vatnið er gufað upp og kínóað er orðið “púffað” (Ég krydda oft með smá salti og túrmerik)
  4. Þegar pottrétturinn hefur mallað í 15 mín getur þú bætt baununum við og leyft öllu að malla í ca 5-10 mín til viðbótar, eða þangað til allt grænmetið er orðið mjúkt.
  5. Kryddaðu til eftir smekk, ég nota frekar mikið krydd því mér finnst gott að hafa hlutina svolítið sterka. Þú getur einnig notað önnur krydd sem passa eins og paprikukrydd eða hvað sem þér dettur í hug. (Ég hef líklega notað meira magn en í lýsingunni, þannig prófaðu þig endilega áfram).

.

Untitled design (31)

Næstu dagar litu síðan svona út:

.

Dagur 1:

Morgunmatur: Hafragrautur með kanil og rúsínum

Hádegismatur: Eggjahræra með steiktu grænmeti og boozt.

Kvöldmatur: Pottréttur með kínóa fyrir 3

.

Dagur 2:

Morgunmatur: Hafragrautur með kanil og rúsínum

Hádegismatur: Afgangur af pottrétti fyrir 1, toppað með avokadó og fersku salati. (núna var ég búin að blanda saman kínóanu við réttinn og allt búið að liggja yfir nóttu (mjög bragðgott)

Kvöldmatur: Quasadillas með grænmetisfyllingu fyrir 3 ( Við keyptum grófar Fahitas kökur og notuðum pottréttinn sem fyllingu ásamt fersku grænmeti, avókadó og salsa sósu og hituðum í ofni – hrikalega gott)

.

Dagur 3:

Morgunmatur: Hafragrautur með kanil og rúsínum

Hádegismatur: Quasadillas fyrir 1

Kvöldmatur: Quasadillas fyrir 3 (sama og daginn áður)

.

Þetta einfaldaði matargerðinu ótrúlega mikið yfir þessa daga og tók aðeins nokkrar mínútur að græja og hita. Sumum gæti fundist þetta of mikið af því sama, en þegar maður breytir aðeins til með því að nota grófar fahitas kökur t.d þá verður þetta að allt öðrum rétt. Einnig legg ég mikla áherslu á að millimálin mín séu fjölbreytt og góð þannig dagurinn verði ekki einhæfur og leiðinlegur. Orkan var því fljót að taka við sér og sykurlanganir duttu alveg niður. 

Ég vona að þú prófir og sjáir hvort þetta geti ekki sparað þér tíma í eldhúsinu. Mig langaði einnig að deila með þér að það er opið fyrir skráningar í “Sterkari á 16” á ný og þetta verður líklega síðasti hópurinn sem fer af stað á þessu ári. Þannig ef þig langar til þess að koma þér af stað fyrir sumarið og verða heilbrigðari og sterkari þá hvet ég þig til þess að vera með núna

.

„Ég er orkumeiri, sterkari og jákvæðari eftir þjálfun og mér fannst best að geta alltaf fundið tíma til að gera æfingarnar. Alveg án samviskubits yfir fjarveru frá heimili og börnum. Æfingarnar voru stuttar en krefjandi, alveg eins og ég vil hafa þær”. – Hanna Sigrún Helgadóttir

Þekkir þú einhvern sem er upptekin og vantar innblástur í eldhúsinu, deildu með þeim á facebook 😉

Heilsukveðja

Sara Barðdal

ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi