Skref dagsins: Gefðu góða og 100% samverustund til þeirra sem standa þér næst

Af hverju? 

Ef þú átt börn gæti þetta verið yndisleg samverustund með börnunum þínum. Við gleymum okkur stundum í amstri og annríki dagsins með símann í annarri höndinni, headphones í eyrunum og Netflix í bakgrunni að reyna að fylgjast með öllu og vera á mörgum stöðum í einu. Hversu oft er það sem þú kúplar þig alveg út og einbeitir þér eingöngu að því sem þú ert að gera á akkúrat þeirri stundinni?

Börnin okkar þurfa ekki endalausa hluti, eitthvað ótrúlega dísætt og óhollt eða stórfenglegustu upplifun í heimi. Það besta sem við getum gefið þeim er óskipt athygli, að vera 100% til staðar hér og nú án utanaðkomandi truflana. Það getur algjörlega reynt á þolinmæðina okkar og oft er þetta ekki nákvæmlega það sem við sjáum fyrir okkur sem frábæra skemmtun, en það er nákvæmlega þess vegna sem þetta er mikilvægt – ekki síður fyrir okkur en þau.

Það eru að sjálfsögðu ekki allir sem eiga börn eða eru með þeim í dag en það sama gildir þrátt fyrir það. Gefðu samverustund án utanaðkomandi truflana þar sem þú ert í núinu. Slökktu á símanum eða skildu hann eftir heima, einbeittu þér að líðandi stund og þeim félagsskap sem þú ert með í dag. Vertu meðvituð um hvort þú grípir í símann þegar dauð stund gefst eða hvort þér finnist þú þurfa að fylla upp í tómarúm með sjónvarpi eða samfélagsmiðlum, niðurstaðan getur oft komið okkur á óvart.

Pin It on Pinterest