Í dag ætlaði ég að deila með þér hvernig maður heldur sér hollum og á “réttu brautinni” yfir hátíðir eins og páska eða á ferðalögum. Ég fór nefnilega í páskaferð til Berlínar og Prag og fannst því tilvalið að deila með ykkur hvernig það gekk.

En greinin verður aðeins öðruvísi en ég áætlaði því mín plön um að halda mataræðinu mínu fóru fljótt útum gluggann eftir margra klst keyrslu og göngu. Þegar ég var orðin svo svöng að ég hefði getað borðað hvað sem er svo að það myndi ekki líða yfir mig. Við könnumst líklega öll við þessa tilfinningu.

Þó svo að upprunalegt áætlunarverk mitt hafi ekki alveg tekist, þá lærði ég nokkra hluti í leiðinni, sem ég vil deila með þér í dag, en þeir voru:

 

1. Að gefa sér tíma til að borða

Við smurðum nesti til að hafa með en vorum ekki nægilega dugleg að gefa okkur tíma til þess að borða það. Þegar of langt líður á milli máltíða þá verður löngun í eitthvað fljótlegt og óhollt rosalega sterk og því fékk holla nestið oft að víkja fyrir einhverju sem maður hefði venjulega ekki valið og ákveðin “fuck it” hugsun tekin við.

.

2. Skipulag

Gott getur verið að skipuleggja máltíðirnar nokkurn veginn yfir daginn þannig að þú dettir ekki inná næsta MacDonalds um leið og garnirnar byrja á gaula. Að vera með eitthvað í töskunni til að grípa í eins og grófa samloku, vínber, möndlur, kirsuberjatómata eða banana getur skipt sköpun. Þannig getur þú frekar tekið meðvitaða ákvörðun um næstu máltíð áður en þú ert orðin eins og hungraður úlfur sem rífur í sig næstu pizzusneið sem þú sérð (já þetta gerðist hjá mér) 🙂

.

b2840c30ea3aa50b8dade5ac81d3e92f

.
3. Vatn, vatn, vatn

Þetta var mjög stórt atriði sem ég klikkaði EKKI á (*high five á mig*), en vatnsdrykkja er ótrúlega mikilvæg og sérstaklega þegar þú ert á ferðalagi. Ég er vön að hafa vatnglas á borðinu allan daginn og því mikilvægt að hafa ávallt vatnsflösku í töskunni, en oft getur líkaminn túlkað þorsta sem svengd.

.

Þetta voru þeir hlutir sem ég tók eftir í páskaferðinni sem ég vona að þú getir nýtt þér á næsta ferðalagi. Ég var einnig dugleg að hoppa inná alla heilsustaði sem ég sá að grípa með mér einn grænan safa þegar ég hafði tök á, en ég fann hvað það var gott fyrir líkamann og orkuna að reyna hafa eins mikið af grænu inni.

Síðan má ekki gleyma að það er stundum allt í lagi að fara út af sporinu, það þýðir ekki að rífa sig niður og gefast upp. Maður heldur bara áfram sínu striki þegar heim er komið og gerir þá bara betur næst. Ég horfi frekar á þetta sem góða áminningu hvað mataræði skiptir miklu máli, því ég fann hversu illa mér leið eftir þessa skyndibita, bjúgur, uppþemba, orkuleysi og vanlíðan sem fylgdi, og horfi því ekki á þetta sem mistök, heldur reynslu sem ég get lært af í staðinn.

Síðustu daga hef ég verið að einbeita mér að grænmetisréttum og er að “hreinsa” í burtu hveiti, sykur, rautt kjöt, minnka mjólkurvörur og bæta inn meira grænu, góðri fitu, grænmeti og ávöxtum, því mér líður einfaldlega betur þannig.

Ég deili bráðlega uppskriftum og hollráðum sem ég hef verið að nýta mér síðustu daga inná blogginu til að hreinsa kerfið eftir ferðalagið. Það gæti gefið þér nýjar hugmyndir sem þú getur nýtt þér.

Deildu endilega með mér hvað þú gerir á ferðalögum hér að neðan. Kannast þú við þessa upplifun?

Heilsukveðja

Sara

P.s Ekki gleyma að deila með vinum á facebook 🙂