Í dag langar mig að deila með þér 4 mistökum sem ég veit að margir eru að klikka á í dag þegar kemur að því að halda sig við heilbrigðan lífsstíl og hreyfingu inní rútínunni.

Þetta eru mistök sem ég gerði sjálf þegar ég var að basla við að æfa reglulega og að koma mér í form á mínum “yngri” árum. Ef þú kannast við eitthvað af þeim, þá hvet ég þig til þess að endurskoða hvernig þú hugsar hlutina og ef þig vantar stuðning þá væri ég ótrúlega ánægð að hafa þig með í ókeypis FiT á 14 jólaplani hér.

 

Mistök #1: Að vera ekki með skýrt plan

Alltof oft veður fólk áfram án þess að vita hvað það er að gera. Það mætir í ræktina og gerir “eitthvað”, það er með óljóst markmið eins og að:

  • “Borða hollar”
  • “Hreyfa mig meira”

Og endar oft á því að hætta, því það vantar skýra sýn á hvert það er að fara, hvaða markmið það vill ná fram og hvernig útkoman á að vera.

Ég mæli alltaf á að gera góða hugarvinnu áður en maður byrjar á einhverju nýju í hreyfingu eða matarvenjum. Það ætti alltaf að vera fyrsta skrefið. Því ef maður veit ekki hvert maður er að fara, þá er ólíklegt að maður nái því nokkurn tíman.

 

Mistök #2: Að vera með “Allt eða ekkert” hugarfar

Kannast þú við að vera annað hvort “all in” eða að þú gerir ekki neitt?

Þú byrjar janúar með krafti eftir hátíðarhöldin, æfir 6 sinnum í viku í ræktinni og borðar ekkert nema þurran kjúkling og brokkolí.

Síðan springur þú, skellir þér á djammið, færð þér Hlölla um nóttina, dominos pizzu daginn eftir og fullan nammipoka á sunnudeginum. Hugsar síðan á mánudaginn að fyrst helgin fór svona þá getur þú alveg eins haldið áfram að sukka, það er allt ónýtt!!

Þú situr síðan með sárt ennið og vonsvikin að hafa klúðrað þessu eina ferðina enn.

Vandamálið með þetta hugarfar er að það mun alltaf klúðrast. Því það er ekkert svigrúm fyrir raunveruleikan, það er ekkert svigrúm fyrir að leika sér, að fara aðeins út fyrir planið og halda síðan áfram. Það gengur aldrei upp og ef þú kannast við þetta bið ég þig um að skilja það eftir héðan í frá, því annars muntu alltaf halda áfram að endurtaka sama vítahringinn.

 

Mistök #3: Að gera eitthvað sem þér þykir leiðinlegt

Alltof oft sé ég fólk kaupa sér kort í ræktina í 100 skipti og enda síðan alltaf aftur með að vera styrktaraðilar. Mörgum finnst ekkert gaman í ræktinni, en virðast samt alltaf fara þangað aftur, því í umræðunni er eins og þetta sé eina leiðin sem fólk fer til þess að koma sér í form.

En það eru svo margar aðrar leiðir en að lyfta lóðum og hlaupa á brettinu. Aðal atriðið er að þú finnir hreyfingu sem þér þykir skemmtileg, og hlakkar til þess að gera. Fyrir mig eru heimaæfingar ótrúlega þægilega, skemmtilegar og fljótlegar, og það kemur fólki alltaf svo mikið á óvart hversu mikið maður getur tekið á því án þess að hafa öll þessi tæki og tól.

„Ég vissi ekki að það væri hægt að svitna svona á stofugólfinu“

„Ég hlakka alltaf til þess að taka æfingu, það hefur aldrei komið fyrir mig áður“

 

Mistök #4: Að fókusa aðeins á niðurstöðuna

Þessi bindur allar hinar að ofan saman. Ef þér finnst ferðalagið að sinna líkama og heilsu ekki skemmtilegt og þú ert bara að hugsa um lokaútkomuna, þá mun þetta ekki ganga upp hjá þér.

Þú þarft að njóta þess að hreyfa þig, velja réttu fæðuna, og vita að þetta er partur af lífinu þínu. Ekki eitthvað sem þú gerir í nokkra mánuði til þess að ná X mörgum kg af og svo getur þú farið aftur í sama gamla farið.

Þú verður að horfa á þetta sem breyttan lífsstíl í jafnvægi. Án allra öfga, boða og banna.

Ég vil endilega fá að hjálpa þér að komast á þennan stað og er því að bjóða uppá ókeypis jólaplan í desember þar sem ég kynni fyrir þér HiiT heimaæfingar, þú færð uppskriftir fyrir jólin og af aðalmáltíðum sem næra þig og gefa þér orku.

Ef þetta er eitthvað sem þú hefur áhuga á að kynna þér smelltu þá hér og vertu með

Kannast þú við eitthvað af þessum atriðum?

Þekkir þú einhvern sem er alltaf í vítahring að byrja og hætta á heilbrigðum lífsstíl? Deildu greininni með viðkomandi!

 

Þangað til næst..

Heilsukveðja

Sara Barðdal

ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi