Í dag langar mig að tala um málefni sem skiptir mig miklu máli.
Í umræðunni í dag finnst mér mikið talað um hitaeiningar og kaloríutalningu. Margir þjálfarar mæla með að fólk telji bara kaloríurnar sínar og nái þannig árangri með því að halda innbyrgðum kaloríum minni en því sem líkaminn brennir.
Allt gott og blessað með það, þannig virkar lögmálið, en þegar við fókusum bara á kaloríur erum við ekki að gleyma mikilvægu atriði þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl?
Hvaðan kaloríurnar koma og hvernig áhrif þær hafa á líkamann okkar og alla starfsemi hans er að mínu mati miklu mikilvægara en að ná að halda sér innan 1500 kcal, 2000 kcal eða hvað sem markmið hvers og eins er.
Því maturinn sem þú setur inn í líkamann þinn er ekki bara bensínið þitt, hann er uppbyggður af efnasamböndum sem hafa áhrif á það hvernig líkaminn þinn starfar, hvernig þér líður yfir daginn, hvernig þú tekur upp næringarefni og einnig hvernig genatjáningin þín kemur fram.
Við fæðumst öll með ákveðin DNA sem við fáum frá forfeðrum okkar, en hvernig genatjáningin verður, er 90% í okkar höndum, og þú getur haft áhrif á það hvernig lykilgen sem stýra þyngdaraukningu, öldrun, streituþoli, geðheilsu og langtíma heilsu koma fram hjá þér.1
Við erum rétt svo að byrja að kynnast þessum heimi DNA og hvernig við getum haft áhrif á tjáningu genanna okkar, en strax vitum við samt svo mikið.
Það hefur t.d verið fundið gen sem er kallað PPARy sem stýrir því hvernig líkaminn bregst við mismunandi fitu. Ein rannsókn sýndi fram að konur sem hafa þetta gen gengur betur að missa fitu ef þær borða meira en 50% af omega 3 og 6 frá fiski og hnetum (í staðinn fyrir kjöt t.d).
Annað gen sem er kallað Clock Gene (Circadian locomotor output cycles kaput gene) hefur áhrif á hringrás svefns og vöku sem þýðir það að ef þú ert ekki með nægilega reglulegan og góðan svefn þá ertu með hærra hlutfall af ghrelin í blóðinni sem gerir þig svengri og þú átt erfiðara með að missa þyngd.2
Í næsta fréttabréfi mun ég deila með þér fleiri genum sem við vitum um og hvernig við getum haft áhrif á þau (ef þú vilt fylgjast með getur þú skráð þig á póstlistann og fengið það sent í innhólfið þitt). En ég vildi byrja á að vekja athygli þína á þessu málefni og skora á þig að byrja að horfa á matinn þinn aðeins öðruvísi en þú ert jafnvel vön.
Það er alltof ríkjandi í samfélaginu að við einblínum aðeins á útlit og margir fara í miklar öfgar til þess að ná fram ákveðinni líkamstýpu, sama hverjar afleiðingarnar eru. Við ættum miklu frekar að horfa á heilbrigðan lífsstíl útfrá því markmiði að minnka líkur á veikindum eins og krabbameina, hjarta og æðasjúkdóma, sykursýki 2 og auka líkur á því að vera heilbrigður í ellinni og geta notið lífsins með börnum og barnabörnum.
Því það sem við gerum í dag hefur áhrif á líkamann eftir 20, 30 eða 40 ár, maður þarf því að muna að vera þakklát fyrir hann eins og hann er í dag og koma fram við hann af virðingu, því heilsan er ekki sjálfsögð og það er hundleiðinlegt að missa hana. Eftir að hafa upplifað það sjálf að þurfa að horfa á móðir mína missa heilsuna og tapa baráttunni við krabbamein, þá veit ég hvað þetta er ömurlegt og er sterkasta vopnið forvarnir!
Ég hlakka til þess að deila fleiri upplýsingum með þér og ég vona að þær komi að gagni. Ef þér fannst greinin áhugaverð mundu þá að deila boðskapnum með vinum.
Það væri gaman að heyra frá þér.
Vissir þú að þú gætir haft áhrif á genatjáningu þína?
Hvaða skref gætir þú tekið til þess að hugsa betur um heilsuna?
Þangað til næst…
Sara Barðdal
ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi
- Sara Gottfried, Harvard and MIT Educated Physician Scientist. 2017. Younger, Harper Collins Puplisher.
- Memisoglu, A., et al. “Interaction between a peroxisome proliferator-activated receptor y gene polymophism and dietary fat intake in relation to body mass.” Human Molecular Genetics 12, no. 22 (2003): 2923-29