Ég á afmæli í dag!

Vá tíminn flýgur áfram og við fljótum með. Hann virðist bara líða hraðar og hraðar með árunum, eru fleiri að tengja við það? 

Hvað getum við gert til að hægja á honum, líklega lítið, nema kannski æft okkur að vera meira í núinu.

Í fyrra skrifaði ég 30 ára afmælisgrein um 30 hluti sem ég hef lært á 30 árum. Ef þú vilt lesa hana þá getur þú gert það hér. Ég hugsaði í dag hvort ég ætti þá ekki að deila 31 hlutum með þér í dag. 

Svo hugsaði ég, á ég þá að skrifa 31 nýja hluti eða bara bæta við 1 hlut?

31 nýjir hlutir hljómar frekar mikið, hef ég lært svona mikið á einu ári? 

Satt best að segja þá held ég að ég geti svo sannarlega sagt það, því síðasta ár hefur verið eitt af því lærdómríkasta sem ég hef upplifað. Ætli það sé ekki það sem ég elska mest við lífið í dag. Það er lærdómurinn, fá tækifærið til þess að vaxa, þroskast, læra nýja hluti, gera mistök, gera betur næst og bæta sjálfa mig. 

Ég ætla ekki að telja upp 31 hluti hér í dag, heldur langar mig að deila með þér breytingu sem ég hef verið að fara í gegnum síðastliðna mánuði. 

Ég hef verið að melta alls konar hluti þetta árið, ég hef sjálf breyst svo mikið. Ekki utanfrá, ég hef ekki gert miklar breytingar þar, ég bý á sama stað, ég er með svipaða rútínu, á sömu vinina o.s.frv. 

En það sem hefur breyst er ég, minn innri maður, eða á ég að segja mín innri kona? 🙂 

 

 

Ég er svolítið að finna mig uppá nýtt og ég er að elska það. Ég er að skapa dýpri tengsl við sjálfa mig, horfast í augu við tilfinningarnar mínar, tengjast hjartanu, takast á við púkann á öxlinni, verða sterkari og vinna í því að skilja gömlu Söru eftir, þessa feimnu, óöruggu og góðu stelpu sem vildi halda öllum góðum, vera næs og halda friðinn. 

,,Það er best að rugga ekki bátnum elskan mín”

Ég hef verið að elta hluti sem ég hélt að gæfu mér hamingju, sem ég hélt að ég “ætti að vilja” eignast, ég hef verið að elta tálsýn og hvernig “fullkomið líf” lítur út í langan tíma. 

Ég er að vinna í því að brjótast í gegnum skilyrðingar samfélagsins, finna út hvað ég virkilega vil fá útúr þessu lífi, hvað gerir mig hamingjusama og ég er kynnast mér uppá nýtt. 

  • Hver er ég? 
  • Hvað vil ég?
  • Hvað vil ég upplifa?
  • Hvað vil ég gefa? 
  • Hvar vil ég vaxa? 

 

Hefurðu spurt þig þessara spurninga?

 

 

Ég er algjörlega að finna mig uppá nýtt, 31 árs í dag! og vá það er yndisleg tilfinning!

 

Þetta er virkilega besta ferðalagið sem þú getur farið á og ég hef frá svo miklu að deila. Í dag langar mig að nýta tækifærið og tilkynna breytingu sem er að fara eiga sér stað, breyting sem varð að gerast, sem er óumflýjanleg, því með innri breytingum, verða að fylgja ytri breytingar, því annars ertu föst á sama stað og áður fyrr og sálin þín þjáist. 

 

Hjartað mitt kallar á þær og ég get ekki annað gert en að hlusta. Því annars mun það hægt að rólega sjúga í burtu alla mína lífshamingju. 

 

Því í þessari vegferð verðum við að læra að hlusta á innsæið okkar. það er þessi litla rödd sem bankar uppá og beinir þér á rétta braut, brautin sem þú veist innst inni að þú átt að fara á, en þorir stundum ekki alveg. 

 

En þú veist að ef þú ferð hana, verðurðu mögulega svo miklu hamingjusamari og frjálsari. Frekar en að velja það sem er öruggt, það sem er þægilegt og það sem þú þekkir. 

 

Því minn helsti ótti er að vakna einn daginn, gömul og hrukkótt og vera full af eftirsjá. Eftirsjá yfir ákvarðana sem EKKI voru teknar, draumarnir og markmiðin sem urðu aldrei að veruleika. Því ég þorði ekki, því ég vildi lifa í öryggi og vildi ekki taka neina sénsa. Hvernig lítur það líf út? 

 

Úff segi ég, það vekur upp alvöru ótta. Það er miklu hræðilegra en óttinn við að mistakast, óttinn við að hlutirnir gangi ekki upp. 

 

Að minnsta kosti gaf ég allt í þetta og reyndi mitt besta og lifði lífinu til fulls, óhrædd. Það er setning sem ég vil geta sagt við sjálfa mig. 

 

Hvað með þig? 

 

 

Á næstu mánuðum munu nýjir hlutir líta dagsins ljós. Ég stefni á að opna hlaðvarð (e. podcast) sem mun fjalla um málefni sem tengjast sjálfsrækt og uppbyggingu á sjálfinu. Þar langar mig að deila með þér öllu því sem ég hef verið að læra sem tengist innri vinnu, hugarfarinu, markmiðum, lífsvelgengni, vellíðan og hamingju svo eitthvað sé nefnt. 

 

Ég er að færa mig meira og meira yfir á þetta svið, því ég sé það alltaf skýrar og skýrar að það er þar sem allt hefst og endar. Ef þessir hlutir eru ekki í lagi, þá verða ekki varanlegar breytingar og við erum alltaf fastar í þessum gömlu förum. 

 

Ný síða og nýtt efni mun opna á næstu vikum og vinna að nýju námskeiði er nú þegar hafin sem tengist hugarfari og sjálfsvinnu. 

 

Með hjálp frá glæsilega HIITFIT teyminu mun starfsemi HIITFIT að sjálfsögðu halda áfram þar sem áherslan á heilbrigða sál í heilbrigðum líkama mun vera í fyrirrúmi, með hreyfingu sem er aðgengileg hvar og hvenær sem er, mataræði án öfga og hugarþjálfun.

 

Við erum að opna nýjan Instagram aðgang sem tilheyrir aðeins HIITFIT og þætti mér ótrúlega vænt um að þú mundir gefa okkur eitt like og hjálpa okkur að skapa hvetjandi platform þar sem við deilum heimaæfingum, uppskriftum, hvatningu og fræðslu sem tengjast heilbrigðum lífsstíl.  

 

Fljótlega mun ný síða opna þar sem nýtt efni með meiri áherslu á hugarfarið mun líta dagsins ljós. 

 

Ég er ótrúlega spennt fyrir komandi tímum og fagna öðru ári af þroska, nýjum lexíum og betra lífi!!!

Ef við erum opin fyrir því, getur lífið bara orðið betra og betra! 

Húrra fyrir 31 ára afmæli!!

 

Takk kærlega fyrir að fylgjast með, ég kann virkilega að meta það. 

Segðu mér endilega hvað þér finnst um breytingarnar, finnst svo gaman að heyra frá þér! 

 

Stórt afmælisknús!

Sara Barðdal

ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi