Ég á afmæli í dag!
Ég er þakklát fyrir enn annað árið, lærdóminn og vöxtinn sem hefur átt sér stað.
Mér finnst alltaf gott að líta aðeins til baka yfir síðastliðið ár til þess að taka inn það sem hefur átt sér stað, þetta góða og þetta erfiða.
Það er erfitt fyrir mig að lýsa því hversu miklar breytingar hafa orðið innra með mér á þessu ári. Því þær eru miklar. Að vaxa sem einstaklingur er ekki alltaf auðvelt, maður þarf að horfast í augu við sjálfa sig, vera opin fyrir að takast á við sársaukann sinn og galla.
Því málið er að við erum öll ófullkomin og á þessu ári byrjaði ég að læra að elska ófullkomleikann og taka hann í sátt. Ég ákvað að kveðja leitina að “fullkomna lífinu” og elska staðreyndina að það er ekkert til sem heitir “fullkomið líf” og vá, frelsið sem fylgir þeirri ákvörðun er magnað!
Einu sinni sagði ég á afmælisdaginn minn að ég vildi alltaf verða sterkari og sterkari með hverju árinu. Á þeim tíma átti ég m.a við líkamann minn og þol, en núna sé ég að það að vera andlega sterkur er mun mikilvægara. Að vera andlega sterkur þýðir ekki að við eigum að harka hlutina af okkur, fara áfram á hnefanum og láta ekkert “snerta” okkur.
Fyrir mér þýðir það að maður sé stöðugt að þroskast sem einstaklingur, að maður sé tilbúin að heila hluti innra með sér sem þarf að heila, horfast í augu við erfiðleikana og líta í eigin barm.
Að vera sterkur er að taka fullkomna ábyrgð á sjálfri sér og eigin lífi, það er að geta haldið innri friði þrátt fyrir að vera í erfiðu umhverfi, það er að geta deilt öllum pörtum af sér, líka þessum sem manni finnst erfiðir eða skammast sín fyrir. Það er að koma hreint og beint fram og standa sterk með sjálfri sér. Það er að kveðja meðvirkni og reyna alltaf að geðjast öllum öðrum og byrja að elska sjálfa sig. Það er að mæta nákvæmlega eins og maður er og vera hreinskilin við sig og aðra.
Það eru þessir hlutir sem ég vil bæta mig í á hverju ári.
Á þessu ári opnaði ég hjartað mitt, ég byrjaði heilun sem ég hafði sett á hilluna í tæp 7 ár, eftir að móðir mín lést. Þetta ferli hefur verið magnað og ég finn að ég er loksins að komast til mín aftur. Því málið er að þegar maður lokar á sársaukann sinn þá lokar maður á svo margt annað líka. Þú getur ekki bara bælt niður erfiðu tilfinningarnar þínar. Þú bælir þær nefnilega allar….
Hér koma nokkrir hlutir sem standa uppúr hjá mér eftir síðustu mánuði:
1. Gefðu þér leyfi til þess að vera nákvæmlega eins og þú ert. Ekki skammast þín fyrir parta af sjálfri þér. Við komum öll inn í þennan heim nákvæmlega eins og við eigum að vera. Ekki fela sjálfa þig frá heiminum og hættu að reyna að vera fullkomin, það er ekkert til sem heitir fullkomin manneskja.
2. Gefðu sjálfri þér allt sem þú þarfnast sjálf. Alla ástina og kærleikann. Þú þarft ekki að leita að þessu í umhverfinu, eða þrá að fá þetta frá annarri manneskju. Fylltu þinn eigin bolla. Taktu sjálfa þig í sátt og elskaðu allt við þig, líkama þinn, reynsluna þína, sigrana þína, lexíur og líka erfiðleikana. Vertu dugleg að spyrja þig spurninga eins og: á hverju þarf ég á að halda í dag?
Allt hefur tilgang, líka áskoranirnar og hindranir. Þær eru þarna til þess að hjálpa okkur að vaxa sem einstaklingar. Þó svo að við sjáum það ekki endilega í augnablikinu. Þá getum við oftast horft til baka og fundið lærdóminn.
Þegar þú lendir í áskorunum, spurðu þig spurninga eins og:
-Hvað er lífið að kenna mér?
-Hvaða eiginleika þarf ég að kalla fram til þess að komast yfir þetta?
-Hvaða lærdóm er ég ekki að sjá í þessum aðstæðum sem ég þarf að sjá?
3. Mundu að gefa þér svigrúm til þess að dvelja í þögninni, því við erum yfirleitt með öll svörin innra með okkur. Ef við gefum okkur aðeins tækifæri til þess að dvelja í kyrrðinni, líta innávið og hlusta á hjartað (innsæið). Ef þú ert óviss, fylgdu góðu tilfinningunni, lokaðu augunum og fylgdu því sem kallar fram meiri gleði og spennu. Það er yfirleitt góður leiðarvísir.
4. Ef eitthvað triggerar okkur við aðra manneskju þá er það eitthvað innra með okkur sem þarf að skoða og heila. Það er mikilvægt að taka ábyrgð á sínum eigin viðbrögðum og skoða af hverju við bregðumst við eins og við gerum. Ef þér finnst einhver pirrandi er það þitt vandamál, ekki viðkomandi. Fólkið í kringum okkur eru speglar af okkur, þannig það sem þú sérð í einhverjum öðrum ert þú líka með innra með þér.
5. Þú færð ekki það sem þú vilt, heldur það sem þú ERT. Ef þú vilt breyta einhverju þá þarftu fyrst að uppfæra hugarfarið þitt og hvernig þú hugsar um hlutina. Þú verður að búast við árangri. Þú verður að búast við því að eitthvað breytist, eða að eitthvað nýtt komi inní lífið þitt. Þú færð það sem þú býst við og ert. Þannig ef þú vilt eitthvað nýtt byrjaðu á sjálfri þér og gerðu innri vinnuna.
Mundu að það er engin eins og þú í öllum heiminum, vertu stolt af því að vera ÞÚ! Þú ert alveg einstök og þú hefur hæfileika og eiginleika sem aðeins þú getur gefið heiminum. Ekki dimma ljósið þitt, skíndu skært!
Í dag er ég 32 ára og ég er þakklát fyrir lífið. Ég finn meira fyrir lífinu og nýt hvers dags meira en ég hef í mörg ár! Ég er spennt fyrir komandi tímum og hlakka til að takast á við ný verkefni og nýtt umhverfi, en ég er á leiðinni til Íslands aftur eftir 5 ára dvöl í Danmörku.
Í tilefni að afmælinu langar mig að vera með afmælisafslátt fyrir þær sem vilja prófa Valkyrjurnar.
Þú getur því fengið 32% afslátt af fyrsta mánuðinum þínum í Valkyrjusamfélaginu okkar út þessa viku!
Notaðu afsláttarkóðann: “32” til þess að tryggja þér afsláttinn.
Elsku lesandi
Haltu áfram hvar sem þú ert stödd. Þú átt skilið að lifa þínu besta lífi mín kæra
Þangað til næst…
Heilsukveðja
ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi