Í yndislega fjölskylduvænu umhverfi á Dalvík býr Hanna Kristín, nýjasta Valkyrja vikunnar. Hún er 33 ára, á tvö börn – sjö og níu ára – og einn eiginmann til bráðum tveggja ára. Hanna Kristín vinnur í fjölbreyttu starfi hjá Frystihúsi Samherja á Dalvík þar sem hún er aðstoðar gæðastjóri og öryggistrúnaðarmaður og finnst æðislegt að fá í starfinu tækifæri til að blanda saman skrifstofustarfi ásamt því að vera inni í vinnslunni sjálfri.

Og það er þessi fjölbreytni og atorkusemi sem einkennir Valkyrjuna okkar svolítið þessa vikuna. Hanna Kristín er úr sveit þar sem henni fannst langskemmtilegast þegar nóg var að gera í girðingarvinnu, heyskap og sauðburði en við tók síðar skiptinemadvöl í Austurríki 2002-2003 sem mótaði hana afskaplega mikið sem persónu. Eftir að hafa klárað nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun með glæsibrag vatt hún sínu kvæði í kross og skellti sér í tækninám síðasta haust þar sem mikill hluti námsins sneri að vélum og tækjum, einhverju allt öðru en hún hafði verið vön

„Mér finnst gaman að fara út fyrir boxið mitt þó það sé erfitt að mörgu leiti, en ég vil vaxa og ég held að þá sé nauðsynlegt að ég fari út fyrir þægindarammann minn. Ég er farin að elska krefjandi verkefni, þó það sé nú alltaf gott þegar þau eru búin, þá líður manni alltaf svo vel að hafa klárað þau.

Ég var frekar lokuð manneskja sem átti erfitt með að koma mér á framfæri og hafði enga trú á mér, en svo eru það litlu sigrarnir sem gera það að verkum að maður verður ánægður með sjálfan sig, að hafa náð að sigra veikleikana sína!“

Hanna hefur alltaf verið mikill íþróttaunnandi, og eru það þá helst fjallgöngur og hjólatúrar sem hafa orðið fyrir valinu en enn á ný lætur hún verða af því að stíga út fyrir þægindahringinn sinn og á nú box hug hennar allan ásamt HiiTFiT-æfingunum og skíðum þegar tækifæri gefst á veturna.

 

Af hverju HiiTFiT þjálfun?

Ég vildi reyna að komast í gott form og var alltaf að taka þátt á nýjum og nýjum námskeiðum. Þá tók ég vel á því og náði rosa flottum árangri, en strax og námskeiðinu lauk minnkaði aðhaldið. Eftir að ég átti börnin varð þetta svo mikil kvöð að þurfa að fá pössun og vesenast í kringum það að fara í ræktina svo ég fór að skoða hvað annað væri í boð því ég er alls ekki að nenna að vera eina til tvær klukkustundir í einu í ræktinni. Þá fann ég prógramm sem kallast Bodyrock og er byggt á stuttum heimaæfingum sem hægt er að gera hvar og hvenær sem er. Strax þá fór ég að finna mikinn mun og náði hellings árangri en svo komu fríin og þá tók ég alltaf frí frá æfingunum líka. Eftir fríin fannst mér rosalega erfitt að komast aftur í rútínuna.

Í fyrra tók ég svo þátt í Sterkari á 16 hjá Söru og tók það alveg alla leið. Var mjög dugleg en þetta var ótrúlega krefjandi tími því við vorum í sumarfríi á þessum tíma og rosalega mikið í útilegum og þess háttar skemmtilegheitum sem gerði erfitt fyrir. En ég náði að halda mér alveg við prógrammið sem Sara setti upp, ekkert smá ánægð með að hafa náð að klára þennan áfanga en þrátt fyrir það verið í sumarfríi, mér fannst ég algjör sigurvegari og það var ofsalega góð tilfinning.

Ég vildi í kjölfarið reyna að viðhalda reglulegri hreyfingu og var mjög dugleg að sinna æfingunum með skólanum að lágmarki þrisvar sinnum í viku. Lenti svo í erfiðu tímabili í desember til febrúar og fann þá að ég þurfti að taka til í hausnum á mér til að finna gleðina og kraftinn á ný. Þá poppaði upp auglýsing frá Söru um að hún væri að fara í gang með Valkyrjurnar, og það sem fékk mig helst til að drífa mig af stað var að það átti að vinna með hugann líka. Ég er svo ánægð með að hafa drifið mig af stað, æfingarnar eru alveg magnaðar!!

 

Hverjar eru helstu jákvæðu breytingarnar sem þú hefur fundið fyrir eftir að þú byrjaðir í þjálfun hjá HiiTFiT/Valkyrjunum?

Ég finn fyrir rosalega mikilli breytingu hugarfarslega séð! Þó breytingarnar komi hægt og rólega finnst mér ég samt hafa náð mjög góðum árangri í að finna þegar ég þarf að fara að hugleiða og er ég mjög dugleg að hlusta á hugaræfingarnar. Finnst það alveg dásamlegt að hlusta á þær áður en ég fer að sofa eða þegar ég vakna á morgnana.

Nú er ég einnig miklu ákveðnari í að ná markmiðunum sem ég set mér og halda inni æfingunum þó það sé nánast enginn tími aflögu, þá geri ég þær bara rétt fyrir svefninn. Þó mér finnist lang erfiðast að koma mér í gang á kvöldin þá finn ég bara svo mikinn styrk og ánægju þegar ég er búin, finnst ég nánast hálf ónýt ef ég er ekki búin að taka æfingu.

 

Hverjir eru þínir uppáhalds ávinningar sem þú hefur upplifað með þjálfuninni?

Þessi aukna lífsgleði og hugsun um hreinna og hollara mataræði. Er daglega miklu jákvæðari og orkumeiri, en auðvitað kemur stundum tími þar sem maður er meira niðurdreginn. Á þeim tímabilum er ég þó ekki lengur að rífa mig niður því að ég leyfði mér að vera löt í einn dag ef maður er slappur. Nú hugsa ég að það sé nauðsynlegt að hlusta á líkamann og hvíla þegar hann er ekki alveg stemmdur til að taka á því eins og þegar maður er frískur.

 

Þinn uppáhalds æfingastaður?

Mér finnst best að gera æfingarnar inn í holinu fyrir framan svefnherbergin því það er mjög rúmgott og lítið nýtt svæði sem er eiginlega bara orðið æfingasalurinn minn.

Gaman einnig að segja frá því að ég er farin að fá manninn minn með mér í eina og eina æfingu og kenna honum að boxa við mig. Mér finnst það nefnilega svo æðislega skemmtilegt og vil halda því inni með HiiTFiT-æfingunum.

Svo finnst mér ótrúlega gaman að fara í fjallgöngur og ætli það sé ekki minn uppáhalds æfingastaður, vera á fjöllum og taka eina létta æfingu þegar maður er kominn upp!

 

Ertu með einhver æfingatips sem hafa reynst þér vel?

Ef ég tek æfingarnar á morgnanna þá finnst mér gott að fá mér einn bolla af vatni áður en ég byrja og vera svo með nóg af vatni á kantinum. Stundum hef ég banana innan handar ef brennslan er mjög mikil til að fá smá orku.

Yfirleitt skipulegg ég æfingadagana þannig að ég taki æfingu yfir daginn, til dæmis þegar ég hef lokið við að hlýða á heimalesturinn hjá börnunum og þau farin út að leika.

Varðandi mataræðið í kringum æfingarnar finnst mér gott að fá mér eitthvað létt og hollt að borða um það bil klukkustund áður en ég tek æfingu því mér finnst orkan bara vera meiri ef ég geri það svoleiðis.

Annars er ég ekki með neitt sérstakt plan þegar kemur að æfingunni sjálfri en finnst þó best að æfa þegar fáir eru heima og ég get stillt tónlistina í botn. Góð tónlist gerir allt svo skemmtilegt og maður fær auka kraft sem er alveg ólýsanlega magnað!

 

Eru einhverjar æfingar sem þér finnst erfiðari en aðrar og þarft að aðlaga?

Já, framstigstapp! Ég er nefnilega ekkert rosalega góð í hnjánum en hef þrátt fyrir það geta gert allar aðrar æfingar þó ég hafi reynt að aðlaga þessa einstöku æfingu. Kassahoppin eru ekki alveg uppáhalds þar sem ég er bara pínu hrædd við þau ef ég kannski næ ekki að hoppa upp á kassann eða eitthvað enda geri ég lítið af svoleiðis æfingum.

 

Er einhver æfing í sérstöku uppáhaldi?

Boxið er auðvitað í miklu uppáhaldi og ég er farin að fíla spænska dansarann og burpees. Spænski dansarinn er mjög lúmskur og ég fékk svo mikla strengi eftir hann að ég ætlaði varla að trúa því að ég væri með einhverja vöðva þarna í hliðunum. En það er nú líka þess vegna sem ég að fíla hann!

 

Hvaða áhrif hefur HiiTFiT-þjálfunin haft á mataræðið þitt?

Ég drekk eiginlega ekkert gos lengur nema sódavatn og stundum topp. Poppið er í miklu uppáhaldi og uppáhaldsnammið mitt eru jarðarber og vínber með smá dökku súkkulaði á. Kökuát hefur einnig minnkað hjá mér, en fæ mér þó ennþá smá köku í veislum og þess háttar en er ekki að fara margar ferðir til að sækja mér meira. Ég reyni frekar að velja brauðrétti og fer bara eina ferð.

 

Hvað myndir þú segja við stelpur og konur sem eru búnar að vera að hugsa um að breyta lífsstíl sínum en eiga erfitt með að taka fyrsta skrefið?

Ég myndi segja þeim að drífa í því að taka fyrsta skrefið því fyrsta skrefið er alltaf erfiðast. Ég myndi hiklaust mæla með Valkyrju prógramminu því þetta hefur gefið mér svo mikið bæði á andlegu hliðinni og líkamlegu og samfélagið er mjög hvetjandi og jákvætt sem gefur manni auka styrk.

 

 

 

Uppáhalds HiiTFiT-þjálfunar minning?

Síðasta sumar fór ég upp í fjallshlíðar til að taka æfingu og vonaðist svo til þess að enginn kæmi akkúrat rétt á meðan ég væri að æfa. Ég var síðan nýbúin og sest á bekk þegar maður kemur labbandi þarna uppeftir mín. Ég var ekkert smá ánægð að ég hafi rétt náð að vera alveg búin með æfinguna, en þegar það er gott veður og mig langar að æfa úti þá er fjallið upplagt því það er svo friðsælt þar!

Einnig finnst mér æðislegt hvað ég er góð fyrirmynd fyrir börnin mín þegar ég æfi heima. Þau eru farin að taka stundum eina og eina æfingu með mér og eftir þegar ég tek æfingar, svo hlæja þau kátt þegar einhverjar æfingar eru kjánalegar. Þeim finnst það alveg rosalega fyndið og fara að herma eftir þessu fyndna. Þetta hefur gert okkur nánari um leið og það gefur okkur aukinn styrk!

Ég er ótrúlega stolt af því að vera í Valkyrjuhópnum þar sem eru alveg endalaust duglegar konur að styrkja sig andlega og líkamlega!