Ég rakst á þessa frábæru uppskrift á netinu fyrir nokkru síðan og fannst hún ótrúlega áhugaverð. Ég átti öll innihaldsefnin til og það tók enga stund að útbúa hana. Bragðið var hinsvegar dásamlegt og endurspeglaði á engan hátt hversu stuttan tíma tók að gera hana! Ég prófaði mig áfram, tók út innihaldsefni og bætti við, og lokaútgáfan var fullkomin fyrir Valkyrjurnar!

Og ekki röng ágiskun þar – súpan hefur algjörlega slegið í gegn! Settu hana endilega á matarplan vikunnar!

Innihald:

2 laukar
2-3 gulrætur
2 sellerístönglar
2 hvítlauksrif – kramin
2 msk ólífu- eða kókosolía
2 dósir niðursoðnir, hakkaðir eða heilir tómatar
400 ml grænmetis- eða kjúklingasoð
4 msk rjómi eða mjólk – má sleppa
Cayenne pipar, salt og svartur pipar
Hnífsoddur reykt paprika – má sleppa

3-4 harðsoðin egg – eitt á mann
Fersk basilika

Aðferð:

1. Saxaðu laukana, gulræturnar og sellerístönglana smátt og steiktu í potti með olíunni og kramda hvítlauknum þar til grænmetið byrjar að mýkjast örlítið. Ef þú ert með annað grænmeti, skerðu það niður og hafðu með í pottinum frá upphafi.

2. Þá er soðinu og tómötunum í dósunum bætt við og því leyft að sjóða við meðalhita í að minnsta kosti 15 mínútur.

3. Notaðu töfrasprota til þess að mauka súpuna þar til hún er slétt og kekkjalaus. Þú getur einnig sett súpuna í blandara eða matvinnsluvél ef það hentar þér betur.

4. Ef þú ætlar að nota rjóma eða mjólk skaltu bæta því saman við súpuna og leyfðu henni svo að malla í örskamma stund. Smakkaðu svo til með salti, svörtum pipar, cayenne og reyktri papriku – öll önnur krydd sem þér finnst góð eru einnig velkomin.

5. Berðu fram með einu harðsoðnu eggi í hverri skál og ferskri basiliku. Þá getur einnig verið gott að nota sýrðan rjóma til að milda bragðið eða setja nokkra dropa af ólífuolíu ofan á. Kjúklingur, steikt eða bakað grænmeti, kínóa, bygg, aðrir afgangar, hnetur og fræ smakkast einnig frábærlega með súpunni.

Upphafleg og óbreytt uppskrift er fundin á http://www.allskonar.is/
Share This

Áhugavert?

Deildu með vinum!