Mjólk er alls ekki það sama og mjólk þó svo hún líti svipað út í fallegu glasi. Kúamjólk fer misvel í fólk og er að sjálfsögðu með næringargildi til þess að koma til móts við þarfir kálfa og því vakna upp spurningar hvort hún sé endilega það besta fyrir mannfólkið eða hvort til séu aðrir valkostir sem séu jafngóðir, eða betri. Með aukinni umhverfisvitund er fólk einnig farið að velja hefðbundnar kúamjólkurvörurnar frá í einhverjum mæli.

 

Plöntumjólkin er hinsvegar tilbúin afurð og því mikilvægt að skoða innihaldslýsinguna til þess að vera viss um að fá hreina, góða og holla afurð án óþarfa viðbættra aukaefna en margar hverjar innihalda til dæmis viðbættan sykur.

Að nota orðið MJÓLK yfir báðar afurðir getur verið ansi misvísandi þó svo útlitið og notkunin sé svipuð. Innihaldið er hinsvegar allt annað og því mikilvægt að vera meðvituð um hvaða vörur innihalda hvaða næringarefni og vera meðvituð um það að mjólk er ekki alltaf það sama og mjólk!

Kúamjólk

Kúamjólkin er ótrúlega próteinrík og inniheldur mikið magn af náttúrulegum mjólkursykri. Sum kúamjólk er einnig D-vítamínbætt þegar hún er sett á fernur en almennt er að kúamjólkin er bæði prótein- og kalkrík, hvort sem um er að ræða feita nýmjólk eða fituskerta undanrennu.

Það er auðvelt að nálgast kúamjólk og væri hægt að segja að hún væri hin upprunalega mjólk ef svo má að orði komast. Þar sem kúamjólkin er náttúrulega sniðin að þörfum kálfa – líkt og brjóstamjólk konunnar er sniðin að næringarþörf barna – er hún ótrúlega próteinrík enda þurfa kálfar mikla næringu og mikið prótein til þess að vaxa og þroskast mjög hratt.

Þekkt er að hátt próteininnihaldið getur farið illa í fólk og er það algengur ofnæmisvaldur hjá börnum og fullorðnum. Til dæmis er ekki mælt með því að ungabörn fái kúamjólk fyrr en í fyrsta lagi eftir 1 árs aldurinn og sumar mjólkurvörur á að bíða enn lengur með. Kúamjólkin er eins og fyrr segir ótrúlega kalkrík en margar aðrar fæðutegundir innihalda kalk og því er alls ekki ástæða til þess að óttast kalkskort ef vilji er til þess að minnka kúamjólkurneyslu.

BRAGÐ: Flestir kannast við sætt og kremað mjólkurbragðið og er plöntumjólkurbragði oft ætlað að vera sem líkast kúamjólkurbragðinu.

Sojamjólk

Innihald próteins í sojamjólk er svipað því sem er í kúamjólk, en ekki er mjög algengt að plöntumjólk sé svo próteinrík. Ókostur við sojamjólkina getur verið að fleiri og fleiri greinast með óþol eða ofnæmi fyrir soja. Samanborið við kúamjólkina er sykurinnihaldið minna í sojamjólkinni en þess í stað inniheldur hún mikið af A og B-12 vítamíni.

BRAGÐ: Örlítið baunabragð af sojamjólkinni og hún er talsvert þynnri heldur en feit kúamjólk.

Notaðu sojamjólkina…

…í matargerð þar sem sérstakt bragðið gefur skemmtilegan keim sem minnir á eitthvað allt annað en kúamjólk

…í bakstur, þar sem áferðin er tiltölulega feit

Hrísmjólk (e. rice milk)

Hrísmjólkin er ekki sérstaklega næringarrík og nánast tvöfalt kolvetnaríkari en kúamjólkin þrátt fyrir að innihalda mjög lítið af próteini. Arsenik er eiturefni sem finnst í hrísgrjónum og nánast ómögulegt er að sneiða hjá ef ætlunin er að borða hrísgrjón og afurðir unnar úr þeim. Því ættu hrísgrjónaafurðir ekki að vera uppistaðan í fæðunni okkar og nauðsynlegt er að hafa þetta í huga þegar kemur að fæðu fyrir ung börn og óléttar konur en þau ættu alveg að sleppa þessum unnu hrísgrjónaafurðum.

Öfugt við sojamjólkina eru hinsvegar allflestir sem þola hrísmjólkina mjög vel. Hún er sykraðri heldur en kúamjólk svo hún er ekki fýsileg afurð fyrir fólk með sykursýki.

BRAGÐ: Hrísmjólkin er frekar vatnskennd og örlítið sæt á bragðið en vegna sætunnar finnst mörgum hún minna hvað mest á kúamjólkina hvað varðar bragð og áferð.

Notaðu hrísmjólkina…

…út á morgunmatinn þar sem bragð hennar er hvorki kröftugt né er hún mjög feit

…í bakstur, deserta og boosta, þar sem bragðið er frekar sætt

Haframjólk

Haframjólkin fer yfirleitt vel í flesta. Hún er mjög trefjarík en trefjar eru góðar fyrir meltinguna og hjálpa til við að lækka kólestról í blóði. Að öðru leiti er haframjólkin frekar vítamín- og steinefnasnauð en talsvert kolvetnarík miðað við hina plöntumjólkur valmöguleikana.

BRAGÐ: Haframjólkin bragðast smá eins og mjólkin sem er eftir í disknum þegar þú ert búin að borða allt Cheeriosið úr honum – hljómar kannski illa en bragðið er gott.

Notaðu haframjólkina…

…í heita rétti, grauta og sósur, því hún skilur sig ekki þegar hún er hituð

…út á haframjölið og annað morgunkorn þar sem sætt hafrabragðið passar einstaklega vel við kornbragðið

Möndlumjólk

Möndlumjólkin er í uppáhaldi hjá mörgum, enda kaloríusnauð og smakkast mjög vel. Hinsvegar innheldur möndlumjólkin lítið af próteini. Möndlur eru einstaklega næringar- og vítamínríkar en því miður skilar það sér ekki vel til mjólkurinnar í gegnum vinnsluna. Hún er þó rík af A-vítamíni og sumstaðar er hægt að fá hana kalk- og D-vítamínbætta. Möndlumjólk hentar ekki þeim sem fyrir þau með hnetuofnæmi.

BRAGÐ: Örlítið sæt með mildum hnetukeim.

Notaðu möndlumjólkina…

…í deserta og grauta, því milt hnetubragðið er einstaklega bragðgóð viðbót

…í boost og matargerð, þar sem möndlumjólkin er hefur góða og kremaða áferð

Kókosmjólk

* ekki sama varan og sú sem þú notar til matargerðar í niðursuðudósum

Er mjög feit, inniheldur ekkert prótein og er heldur ekki sérlega kaloríurík. Þar að auki inniheldur hún hvorki kalk, A-vítamín né D-vítamín – nema því sé þá bætt við hana.

BRAGÐ: Mjög mikið kókosbragð

Notaðu kókosmjólkina..

…í asíska rétti eins og wok og súpur, þar sem bragðið er exótísk og passar vel saman við sterkt krydd

…í pönnukökur og drykki sem gjarnan mega við sætu bragði

Hér að neðan eru meðaltöl af næringargildi nokkurra mjólkurtegunda. Athugaðu að plöntumjólk er oft með viðbættum vítamínum og næringar- og bragðefnum, til dæmis kalki og sykri, og því getur það haft áhrif á þessar tölur. Tölurnar eru fengnar af síðunni mejeri.dk.

UMHVERFISÁHRIF: Rannsóknir benda til þess að möndlu- og kúamjólkin séu verstar fyrir umhverfið á meðan haframjólk, kókos- og hrísmjólkin séu bestar fyrir umhverfið.

NIÐURSTAÐA: Næringarlega séð er ekki hægt að segja að plöntumjólk og kúamjólk séu sambærilegar afurðir, en burtséð frá því er það kalkbætt sojamjólk sem kemst næst því að vera staðgengill kúamjólkur hvað næringargildin varðar. Hrís- og haframjólkin eru lengst frá því að geta komið næringarlega séð í stað kúamjólkur, sérstaklega fyrir yngri börn, en hvað bragð, áferð og notkun eru þessar vörur mjög góðir staðgenglar kúamjólkur í matreiðslu.

Ef kúamjólkin er aðaluppspretta kalks í þinni fæðu skaltu velja vel hvaða vörur þú setur inn í staðinn til þess að uppfylla kalkþörf líkamans – og það er af nægu að velja. Stækkaðu sjóndeildarhringinn og prófaðu þig endilega áfram en mundu að lesa aftan á vöruna til þess að vera viss um að þú sért að neyta þeirrar vöru og fá þau næringarefni sem þú gjarnan vilt.

Þessi texti var hluti af mataræðisfræðslu Valkyrjanna í janúar – en auk mjólkur tókum við fyrir og bárum saman aðrar matvörur sem oft eru settar upp hlið við hlið, líta út og eru notaðar á svipaðan hátt!

Í febrúar er Valkyrjuþemað „Keep it simple“

 

Skráningu lýkur eftir

Day(s)

:

Hour(s)

:

Minute(s)

:

Second(s)

Share This

Áhugavert?

Deildu með vinum!