Hjúkrunarfræðingurinn Sigrún Elva Guðmundsdóttir er fyrsta Valkyrja vikunnar hjá HiiTFiT. Hún vinnur á Ási í Hveragerði en æfir í Þorlákshöfn þar sem hún býr ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Hún er ein af þeim reynslumeiri í HiiTFiT þjálfuninni en æfingarútínan hennar er mjög breytileg þar sem hún vinnur yfirleitt á morgun- eða kvöldvöktum og tvinnar vaktavinnuna saman við fjörugt fjölskyldulíf.

 

Valkyrja vikunnar verður fastur liður hjá okkur í HiiTFiT þar sem við skyggnumst undir yfirborð perlandi svitadropa og æfingafatnaðar og kynnumst betur Valkyrjunni sem leynist þar undir.

 

Af hverju HiiTFiT þjálfun?

Ég æfði áður í World Class sem var rétt hjá húsinu mínu og átti ég þá mjög auðvelt með að skipuleggja æfingar í kringum vinnu og heimilishald. Var svo ólétt af þriðja barninu mínu þegar ég flutti til Þorlákshafnar árið 2015 og náði ekki að fara svo mikið í ræktina í fæðingarorlofinu mínu hér í Þorlákshöfn.

Ég prófaði svo fjarþjálfun hjá kunningja mínum þar sem voru heimaæfingar og fann hvað var þægilegt að geta æft heima með lítið barn. Eftir það kynntist ég HiiTFiT hjá Söru sem hentaði mér enn betur því þar voru æfingarnar mikið styttri og það var þægilegt að geta æft á meðan sú litla svaf. Nú er ég að taka morgunvaktir, kvöldvaktir og næturvaktir í vinnunni og með góðu skipulagi hef ég getað tekið æfingar heima – aðallega vegna þess hversu stuttan tíma þær taka!

Ef börnin hafa verið vakandi hefur maðurinn minn verið duglegur að vera með börnin. Sú yngsta er 2 ára og það getur verið frekar krefjandi að reyna að æfa með hana í kringum sig en minna mál með strákana sem eru 4 og 6 ára. Eftir einhver tíma verður auðveldara fyrir mig að æfa í kringum þau og jafnvel æfa með þeim.

 

Hverjar eru helstu jákvæðu breytingarnar sem hefur þú fundið fyrir eftir að þú byrjaðir í þjálfun hjá HiiTFiT, og síðar í Valkyrjunum?

Ég borða hollari mat og er skipulagðari svo fátteitt sé nefnt. Ég reyni að finna ekki afsakanir til að sleppa því að æfa og er duglegri að taka með mér nesti í vinnuna þar sem oft er unninn matur sem fer illa í magann á mér.  

 

Hverjir eru þínir uppáhalds ávinningar sem þú hefur upplifað með þjálfuninni?

Ég finn mest fyrir aukinni orku eftir að ég hef æft, hvað úthaldið hefur aukist og ég er orðin töluvert stæltari og sterkari. Æfingarnar hjá HiiTFiT eru mjög skemmtilegar og fjölbreyttar. Ég elska einnig hvað það tekur stuttan tíma að æfa og að ég geti æft heima.

 

Er eitthvað gólf betri en önnur gólf á heimilinu? Hver er þinn uppáhalds æfingastaður?

Ég æfi alltaf á stofugólfinu en á sumrin í góðu veðri hef ég æft á pallinum. Þess á milli hef ég farið út að hlaupa með hundinn. Það besta við æfingarnar í HiiTFiT er að maður þarf ekki mikið pláss.

 

Ertu með einhver æfingatips sem hafa reynst þér vel?

Ég er slæm í hnjám svo það hefur hjálpað mér að vera með hnéhlífar þá þreytist ég síður í hnjánum. Svo passa ég alltaf að drekka nóg af vatni, drekk aðeins fyrir æfingu og vel eftir æfingu. Svo reyni ég að láta ekki líða langan tími eftir æfingu þar til ég borða eitthvað en venjulega fer ég beint í sturtu og fæ mér svo strax grænan drykk. Ég er alltaf með skemmtilega tónlist þegar ég æfi (sniðugt að gera playlista á spotify og skipta reglulega um ef maður fær leið á lögunum). Stundum nenni ég bara alls ekki að æfa en það sem hvetur mig er að fara á Valkyrju Facebook grúppuna og sjá hvað Valkyrjurnar eru duglegar. Það hjálpar líka að kveikja á tónlist og komast þannig í stuð

 

 

Eru einhverjar æfingar sem þér finnst erfiðari en aðrar og þú hefur þurft þarft að aðlaga að þínum styrk og getu?

Mér finnst æfingar með hoppum alltaf erfiðastar út af hnjánum á mér, en það fer svolítið eftir hoppum. Hnébeygjuhoppin og snjóbrettahoppin valda því að ég þreytist í hnjánum en ég aðlaga þá bara æfinguna að því og stytti æfinguna aðeins. Þá geri ég oft venjuleg framstig og afturstig í staðinn fyrir framstigshopp eða framstigstapp.

 

Er einhver æfing í sérstöku uppáhaldi?

Mér finnst burpees skemmtilegar og ekki mjög erfiðar því þar eru ekki hopp. Annars finnst mér líka ótrúlega gaman að gera æfingar með lóðum. Ég á nú orðið tölvuert af þyngdum svo ég get breytt um þyngd á milli æfinga ef ég þarf.

 

Hvaða áhrif hefur HiiTFiT þjálfunin haft á mataræðið þitt?

Mataræðið hefur breyst mikið frá því sem áður var og lít ég allt öðrum augum á mat í dag. Ég er mjög viðkvæm í maga því ég er með ristilvandamál svo ég þarf að passa hvað ég borða. Eftir að ég byrjaði í þjálfun þekki ég fleiri fæðutegundir og veit betur hvaða matur er næringarríkur og hvaða matur er það ekki.

Mitt uppáhalds “go-to gotterí” eru kasjúhnetur, dökkt súkkulaði, döðlur ásamt ýmsu góðgæti sem ég hef gert eftir uppskriftum sem ég hef fengið hjá Söru.

 

Áttu þér uppáhalds HiiTFiT þjálfunar minningu?

Í minni fyrstu fjarþjálfun hjá Söru var æfing þar sem ég þurfti að standa á höndum. Það hræddi mig mikið að þurfa að gera þá æfingu og var ég lengi að mana mig í að fara beint upp svo ég bakkaði alltaf aftur á bak upp vegginn. En svo með tímanum hef ég orðið nokkuð örugg og get einnig tekið nokkrar handalyftur í leiðinni. Ég bað manninn minn um að taka myndband af því fyrir mig til að eiga.

Nú er ég að reyna að labba á höndum en held að það taki lengri tíma að ná því. 

 

 

Vilt þú vera með í Valkyrju samfélaginu? Nú er sumartilboð í gangi í takmarkaðan tíma, þar sem þú getur fengið mánuðinn á AÐEINS 8.000 kr. 

Ef þú ert með einhverjar spurningar, ekki hika við að senda okkur línu á netfangið hiitfit@hiitfit.is

 

Smelltu hér til þess að tryggja þér sumartilboðið