Stella er 38 ára og býr í Sviss, þar sem hún hefur verið búsett síðustu 18 ár. Hún er þriggja barna móðir og lærður sjúkraþjálfari. Frá því að hún var lítil hefur hún alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og hreyfingu en nú snúast áhugamálin að mestu leyti um áhugamál barnanna. Stella hefur í gegnum árin reynt að nýta hver tækifæri í hversdeginum til þess að nota líkamann en í frístundum kennir hún einnig og æfir blak.

Þrátt fyrir að eiginmaður hennar hverfi til vinnu fyrir klukkan sjö á morgnanna og kemur ekki heim fyrr en tólf tímum seinna finnur Stella einnig tíma til þess að vera virk í stjórnunarstarfi íþróttafélagsins í þorpinu, hekla – sérstaklega á veturnar – og að sjálfsögðu hlú að líkama og sál með Valkyrjunum.

 

Afhverju HiiTFiT þjálfun?

Síðan ég varð móðir hef ég reynt að nýta hvert tækifæri í hinu daglega amstri til þess að nota líkamann á einhvern hátt, fara í göngu- og hjólatúra með börnunum, elta þau á leikvellinum og gera það sama og þau, taka stigann í staðinn fyrir lyftuna o.s.frv. Á þennan hátt hefur mér tekist að vera í kjörþyngd og þokkalega hraust. Sem sjúkraþjálfari, blakþjálfari, móðir og eiginkona manns sem, eins og áður segir, fer út úr húsi fyrir klukkan sjö og kemur ekki heim fyrr en sirka tólf tímum seinna, var ég endalaust að gefa af mér og lét sjálfa mig sitja á hakanum í mörg ár.

Fyrir rúmu ári fann ég að andlegt jafnvægi, svefninn og líkamlegt hreysti voru að sigla í hættulega átt og ekki seinna vænna en að taka í taumana. Hreyfing, þá aðallega útihlaup, hefur alltaf verið það sem hefur hjálpað mér að endurnýja kraftana og ég ákvað að nú tæki ég mig á, færi oftar út að hlaupa. Á sama tíma sá ég auglýsingu um Sterkari á 16 námskeiðið og ákvað að vera með.

Ég hellti mér í verkefnið af fullum krafti! Fór út að hlaupa eða gerði HiiTFit æfingu á nánast hverjum degi EN gaf mér hvorki tíma til þess að gera teygjuæfingar, hugaræfingar eða NJÓTA æfingana. Ég dreif þetta bara af eins og hvert annað verkefni og ætlaði sjálfri mér alltof mikið. Ég endaði með nagandi samviskubit yfir því að gera þetta ekki eftir bestu visku og fræðum, sem ég er jú menntuð í, og stirðnaði enn meira líkamlega og andlega. Á endanum fór ég að hakka sjálfa mig niður fyrir ófaglega vinnu og aumingjaskap og með tímanum datt ég niður í sama gamla farið.

Í byrjun árs 2018 datt inn í pósthólfið mitt auglýsing frá Söru um Valkyrjurnar og þegar ég las hvernig það var sett upp ákvað ég að slá til!

 

Hverjar eru helstu jákvæðu breytingarnar sem þú hefur fundið fyrir?

Ég hef lagt aðaláherslu á hugaræfingarnar og er strax farin að uppskera meiri jákvæðni gagnvart sjálfri mér. Ég farin að íhuga ýmsa hluti fyrir mína framtíð sem mér óraði ekki fyrir að mig langaði að gera og hvað þá að ég hefði trú á því að ég gæti framkvæmt! Með betri styrk, liðleika og þoli hef ég einnig náð framförum í blakinu og betri tíma á uppáhalds skokkhringnum.

 

Hverjir eru þínir uppáhalds ávinningar sem þú hefur upplifað með þjálfuninni?

Ég hef áttað mig á að ef hausinn og hjartað eru ekki á sama stað og réttum stað í svona áskorunum brennur maður yfir eða byrjar yfir höfuð ekki. Þessi uppgötvun leyddi til þess, að ég er búin að bóka mig á námskeið í markmiðakennslu sem ég hyggst nýta mér í starfi mínu sem sjúkraþjálfari.

 

Segja má að þvottahúsið sé einn af æfingastöðum Stellu, en hún hefur vanið sig á að hlusta á hugaræfingarnar meðan hún brýtur saman þvottinn

Hver er þinn uppáhaldsæfingastaður?

Ég æfi úti í náttúrunni alltaf þegar ég get! Ef ég er ein heima skokka ég útí skóg og finn mér þar góðan stað til þess að gera æfingarnar og nota trjádrumba eða bekki sem æfingatæki.  Ef börnin eru heima og er ég í garðinum eða sólstofunni. Ferska loftið og birtan gera manni svo gott.

 

Ertu með einhver æfingatips sem hafa reynst þér vel?

Ég hef vanið mig á nokkuð sem ég kalla morgunmöntru. Þetta eru 3-4 setningar sem minna mig á hversu gott líf mitt er og hvernig ég vil halda út í daginn. Fyrst var þetta svolítið kjánalegt og jafnvel vont, en sem svo oft áður skapar æfingin meistarann! Ég hef líka vanið mig á að hlusta á hugaræfingarnar hennar Söru á meðan ég brýt saman þvottinn og finnst það yndislegt.

 

Eru einhverjar æfingar sem þér finnst erfiðari en aðrar og þarft að aðlaga?

Burpees er allavega pottþétt ekki uppáhaldsæfingin, en eftir því sem liðleikinn og styrkurinn verður meiri er hún ekki alveg jafn ógnvekjandi og fyrst.

 

Er einhver æfing í sérstöku uppáhaldi?

Mér finnast snjóbrettahoppin alltaf skemmtileg og síðan kemur spænski dansarinn sérstaklega sterkur inn.

 

Hvaða áhrif hefur HiiTFiT-þjálfunin haft á mataræðið þitt?

Ég skal alveg viðurkenna að ég hef ekki tekið mjög á mataræðinu hjá mér, en það kemur sennilega með tímanum. Ég hef alltaf verið mikill ofnæmispési og síðustu ár hefur frjókornaofnæmið plagað mig frá lok janúar og til júli.

Óháð Valkyrjunum var mér bent á að prófa að forðast mjólkurvörur á þessum árstíma og athuga hvort mér myndi ekki líða betur. Ég minnkaði því neysluna á mjólkurvörum mikið og var nánast einkennalaus í vor!

Mér finnst kínóasalatið með appelsínunum rosa gott og núna er algjör dásemdar árstími að hefjast þar sem ég get keypt allskyns ber og ávexti beint frá býli.

 

Hvað myndir þú segja við stelpur og konur sem eru búnar að vera að hugsa um að breyta lífsstíl sínum en eiga erfitt með að taka fyrsta skrefið?

Hér færðu að gera hlutina algjörlega á þínum hraða og bara aðhaldið frá Söru, Maríu Lind og hinum Valkyrjunum er passlega mikið. Þú stjórnar því algjörlega sjálf hvað þú ætlar að fá út úr námskeiðinu og hefur því engu að tapa!

 

Hver er uppáhalds HiiTFiT-minningin þín?

Ég var um daginn að horfa á Sviss spila á HM í knattspyrnu og var því ekki komin upp í rúm fyrr en rétt fyrir miðnætti. Ég ákvað að lengri svefn væri mikilvægari heldur en morgunæfing sem var rétt í þetta skiptið. Daginn eftir var ég samt alltaf ađ spá hvort ég kæmi æfingu inn í daginn þar sem ég sleppti vanalegri morgunæfingu en sá ekki fram á að það tækist fyrr en eftir kl.21:00, sem er alls ekki minn tími. Um klukkan 16 var ég sest upp í sófa međ símann og sá hvatningarpóst frá Maríu Lind á Valkyrju-grúppunni okkar á Facebook.

Ég leit á klukkuna og sá ađ ég hafði 45 mínútur áður en ég þyrfti ađ fara aftur út úr húsi. Fyrsta hugsunin var allar stelpurnar mínar væru með vinkonur í heimsókn – næsta hugsun var „OG SO WHAT?!“ – „ég ætla mér að vera góð fyrirmynd fyrir þær allar! Því næst slökkti ég á símanum, dreif mig í íþróttafötin og skellti í HiitFit júní æfingu nr.3 úti í garđi. Vá hvað mér leið miklu betur á eftir og er svo stolt yfir að hafa ekki verið símafyrirmynd heldur íþróttaálfur! Þarna sá ég hvað ég var komin langt í þessu ferli mínu!

 

 

Viltu vera Valkyrja?

Smelltu HÉR!

 

 

Pin It on Pinterest

%d bloggers like this: