Elisabeth Patriarca Kruger býr í Laugardalnum ásamt eiginmanni sínum og 4 ára dóttur. Hún er Valkyrja vikunnar og hefur hefur náð góðum árangri með Valkyrjuhópnum. Á milli þess sem hún æfir, syngur í kór, spilar á píanó og prjónar, finnur hún örlítinn tíma til að sinna starfi sínu sem lögfræðingur. Hún elskar að leggja land undir fót og ferðast bæði innan og utanlands, og til hátíðarbrigða skellir hún sér í zumba

 

Af hverju HiiTFiT þjálfun?

Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum en eftir meðgöngu var ég lengi að koma mér aftur af stað. Ég var að gefast upp á kostnaðarsamri fjarþjálfun sem var tímafrek, en meiri hluti tímans fannst mér fara í að bíða eftir tækjum. Mér fannst ég vera föst á sama stað og vantaði hvatningu til að koma hreyfingu aftur í rútínu án þess að það væri kvöð og var ég því að leita eftir persónulegri þjálfun sem tæki á heildarpakkanum, þ.e. mataræði, hreyfingu og hugarfari. Ástæðan fyrir því að ég skráði mig svo að lokum í HiiTFiT þjálfun haustið 2017 var sú að það heillaði mig að geta gert krefjandi æfingar hvar og hvenær sem er sem tæki samt stuttan tíma og ég gæti þannig eytt meiri tíma með fjölskyldunni minni. Þá er fræðslan og hvatningin frá Söru ómetanleg.

 

Hverjar eru helstu jákvæðu breytingarnar sem þú hefur fundið fyrir eftir að þú byrjaðir í þjálfun hjá HiiTFiT/Valkyrjunum?

Í dag geri ég æfingar með allt öðru hugarfari en mér finnst þetta orðið mjög gaman og finn hvað hreyfingin eykur lífsgæðin. Ég upplifi skrýtna tilfinningu ef ég næ ekki hreyfingu dagsins enda er hreyfing orðin hluti af minni daglegu rútínu. Ég huga meira að svefninum og gæti þess að ná sjö til níu klukkustunda svefni á hverjum sólarhring – enda finn ég mestan mun þegar góður svefn og hreyfing haldast í hendur.

Ég huga meira að andlegu hliðinni og einblíni á að styrkja sjálfsmyndina en ég er farin að líta á það sem langtímamarkmið sem ég er alltaf að vinna að.

 

Hverjir eru þínir uppáhalds ávinningar sem þú hefur upplifað með þjálfuninni?

Ég er orkumeiri, úthaldið er betra og ég finn fyrir auknum styrk. Ég elska að finna þá vellíðan sem kemur eftir átökin.

Áhersla á eigið hugarfar finnst mér nauðsynlegur þáttur af þjálfuninni. Ég fann eftir ákveðinn tíma hversu mikilvægt það er að „taka til í hausnum“ inn á milli. Mér finnst vera þvílíkur ávinningur af mánaðarlegu hugaræfingunum og meðal annars minna sig reglulega á að hrósa sjálfri sér og fara yfir markmiðin, hvernig ég ætla að ná þeim og hverjar eru ástæðurnar fyrir þeim. Ef maður ætlar að ná langtíma-markmiðum sínum þá þarf hugurinn að vera með.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að þjálfunin virkir alla fjölskylduna. Ég og maðurinn minn gerum oft morgunæfingar saman og svo hefur sú litla byrjað að gera nokkrar æfingar með mér til gamans.

 

Hver er þinn uppáhalds æfingastaður?

Yfirleitt byrja ég daginn á æfingu áður en annríkið tekur við og tek þá yfir stofugólfið, ég reyndar geri það eiginlega líka um helgar. Þegar vel viðrar  þá finnst mér frábært að geta stokkið út í garð og skellt í eina æfingu þar. Í raun get ég gert æfingarnar hvar sem er en helsti ávinningurinn af því að gera æfingarnar heima er að fá hvatningu frá fjölskyldunni og um leið vera góð fyrirmynd.

 

Eru einhver æfingatips sem hafa reynst þér vel?

Mér finnst mjög gott að fara yfir æfingarnar kvöldið áður svo tíminn nýtist vel á morgnanna. Ég hvet líka allar að nýta sér þann stuðning og þá hvatningu sem er að finna í Valkyrjunum. Ég prenta alltaf út æfingaplan mánaðarins og hengi það á ísskápinn svo ég geti merkt við æfingarnar strax. Þá sé ég sjónrænt hvað mér miðar áfram og hvað ég hef afrekað, það er líka hluti af markmiðinu að hrósa mér meira!

 

Áttu þér einhverja uppáhaldsæfingu? 

Poweræfingar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær taka stuttan tíma en eru um leið ótrúlega krefjandi. Uppáhalds einstöku æfingar mínar eru handstöðuæfingar, mér finnst orðið ótrúlega spennandi að gera handstöðu-armbeygjur og ab roll-up-s fá mig alltaf til að brosa. Og ég trúi eiginlega ekki að ég sé að fara að segja þetta, ég hafði mikla óbeit á burpees þegar ég byrjaði í HiitFit þjálfuninni en núna elska ég hvað burpees er fjölbreytt æfing, tekur á mörgum vöðvum og fær púlsinn til að stíga.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá finnst mér frábært hvað æfingarnar eru fjölbreyttar og ég er alltaf að læra nýjar útfærslur af hinum ýmsu æfingum.

 

Hvaða áhrif hefur HiiTFiT-þjálfunin haft á mataræðið þitt?

Ég er duglegri við að gera fleiri tilraunir við að aðlaga uppskriftir að hreinu fæði sem og vera meira meðvituð um innihald matvara. Ég útbý matarplan fyrir vikuna og legg áherslu á að borða alltaf eitthvað grænt á hverjum degi. Mottóið mitt er að „njóta í jafnvæginu“.

Ég viðurkenni þó að það má alltaf gera betur, sérstaklega þegar það er mikið annríki. Núna undanfarið hef ég því skoðað hvað betur má fara og eitt af því er að gefa sér meiri tíma í undirbúning svo annasamir dagar hafi ekki slæm áhrif á mataræðið.

Mitt uppáhaldsgotterí er dökkt súkkulaði, hnetur og harðfiskur.

 

Þín uppáhalds HiiTFiT-þjálfunar minning?

Dóttir mín, 4 ára, spurði mig í eitt skiptið af hverju ég væri alltaf að gera þessar æfingar. Ég svaraði: „Svo ég verði sterk og hafi meiri orku.“ Þá sagði hún: „Mig langar líka að vera sterk!“

Ég fæ ekki bara stuðning frá fjölskyldunni í æfingunum heldur líka hjá heimiliskettinum, Ídiló, sem er orðin ómissandi partur af æfingarútínunni. Þegar ég breiði úr æfingadýnunni þá kemur kötturinn sér alltaf fyrir á sínum stað á dýnunni. Þrátt fyrir öll hoppin og puðið í kringum hana, liggur hún bara í makindum sínum og malar. Það er ekki fyrr en komið er að teygjunum sem hún stendur upp.

 

Vertu með í Valkyrjunum!

Share This

Áhugavert?

Deildu með vinum!