Ásta Júlía er nýorðin 31 árs og býr í Hörgársveit þar sem hún er uppalin undir Hraundranganum og hefur því búið í sveit meira og minna alla sína ævi. Fyrir þrettán árum síðan eignaðist hún tvö dásamleg bónus börn þegar hún byrjaði með manninum sínum en síðan þá hafa þau eignast tvo kraftmikla drengi.

Ásta Júlía talar um sjálfa sig sem algjöra sveitastelpu og sækir hún orku og kraft beint í náttúruna enda reynir hún að njóta þess eins oft og hún getur að vera úti undir berum himni. Hún er mikill dundari og snúast áhugamálin oftar en ekki að því að skapa eitthvað nýtt eins og að prjóna, saga út, mála, gera upp húsgögn og annað föndur. Mikinn innblástur fær hún í vinnunni enda starfar hún í iðju- og félagsstarfi aldraðra með frábæru fólki sem hefur kennt henni margt, bæði í handverki og hugsun.

 

 

 

 

 

 

 

En hvernig kom það til að Ásta Júlía endaði í Valkyrjunum?

Ég hef oftast verið að gera eitthvað en aldrei náð nógu góðum takti. Ég lenti á vegg fyrir einu og hálfu ári síðan og áttaði mig á því að ég hafi látið mig, líkamlega og andlega, sitja á hakanum. Ég byrjaði í jóga sem var nákvæmlega það sem ég þurfti. Samhliða því fór ég að skokka og um sumarið skráð ég mig í heilsuáskorun HiiTFiT, Fit á 14, þar sem var sumarfríið var nýbyrjað og ég var svo tilbúin til þess að taka skrefið lengra.

 

Í framhaldinu var ég með í Sterkari á 16, sem var algjörlega magnað námskeið sem hélt mér vel við efnið. Eftir það prófaði ég hina og þessa hreyfingu en fann aldrei það sem ég var að leita að og náði illa að finna orku eða takt. Var alltaf með Valkyrjuprógrammið á bak við eyrað og það kitlaði mjög að vera með í því. Tók þó ekki skrefið fyrr en í lok apríl, komin á fullt í sauðburði og fann að þetta var einmitt það sem mig vantaði.

 

Hvernig hefur þjálfunin og veran í Valkyrjunum breytt þinni daglegu/vikulegu rútínu?

Áður en ég byrjaði í Valkyrjunum, rétt hafði ég mig fram úr rúminu á morgnana til að klæða mig og koma drengjunum af stað í skóla/leikskóla en nú er ég farin að vakna klukkan sex á morgnana og geri oftast æfingarnar þá. Það kemur deginum svo miklu betur í gang. Þetta plan gerir það að verkum að að ég er mun orkumeiri eftir vinnudaginn en ef ég sleppi æfingunni.

Ég er líka farin að hætta að nota tímaleysi og börnin sem afsökun fyrir því að hreyfa mig. Oftast eru æfingarnar gerðar með strákunum mínum eða í kringum þá.

 

Mig langar sjaldan í óhollustu en hins vegar tók ég þá ákvörðun að banna mér ekkert og þá varð einhvern veginn auðveldara að borða holla og hreina fæðu því mig langar sjaldnar í sykur eða óhollan mat. Ég hef góðan aðgang að hreinu kjöti og því er borðað lítið af unnum matvörum. Ég finn fyrir löngun til þess að hreyfa mig, eða meira kannski að ég finn að ég þarf að hreyfa mig.

 

Ef ég fæ ekki útrás með hreyfingu verð ég öll ómöguleg og þreytt og pirruð. Og það þarf ekki að vera mikil hreyfing, lítil stund gerir gæfumuninn. Ég er einnig alveg á því að gott æfingaplan og fyrirfram ákveðinn matseðill eru mikilvæg tól til að halda góðri rútínu.

 

Hugaræfingarnar finnst mér alveg frábærar og þær hafa gert helling fyrir mig á ekki lengri tíma en þessum mánuðum sem ég hef verið með í Valkyrjunum. Ég er líka farin að finna hreyfingu í flestum aðstæðum og bý mér oft til æfingar á staðnum, hvar sem ég er.

 

Ég fékk slæma sýkingu í byrjun júní sem olli því að ég gat lítið hreyft mig og varð frekar kraftlítil. Í staðinn fyrir að láta það stoppa mig var ég alltaf með hugann við þær æfingar sem ég gat gert. Ég gerði hugaræfingarnar reglulega og um leið og ég mátti fara af stað aftur var það mun auðveldara en ég hélt, þó ég hafi fundið vel fyrir því að hafa misst mikinn kraft og þol. Áður hefði það tekið mig einhverjar vikur eða mánuði að komast af stað aftur og ég er viss um að ég hefði notað allar afsakanir í veröldinni fyrir því að byrja ekki strax. Þess í stað var ég óþolandi því ég talaði ekki um annað en hreyfingu og hvað ég ætlaði að gera um leið og ég mætti!

 

Hverjar eru helstu jákvæðu breytingarnar sem þú finnur fyrir?

Ég hef verið að díla við verki og máttleysi í höndum á annað ár núna og ekki vitað hvað er í gangi. Hin klassíska vöðvabólga hefur líka verið að hrjá mig. Ég finn að ég er mun betri af þessu þegar ég held hreyfingunni inni. Með því að vera duglega að teygja finn ég að auk þess að stirðleikinn minnkar og með því óþægindi í mjöðmum. Ég er svo stirð að spítukall hefði hrósað sér af liðleika sínum við hliðina á mér! Þegar ég hreyfi mig er ég mun léttari á mér og á auðveldara með að takast á við allskonar verkefni sem verða á veginum í gegnum daginn.

 

Markmiðasetning er eitthvað sem ég hef aldrei kunnað svo ég er virkilega glöð með kennsluna á þeim og hef nýtt mér hana vel. Er loksins að sjá að ég get sett mér markmið og náð þeim! Dæmi um það er að standa á höndum, en að geta það hefur verið draumur lengi og loksins hef ég náð því. Mig vantar þó smá upp á styrk og þor til að spyrna mér sjálf upp við vegg, en það kemur!

 

 

 

 

Hver er þinn uppáhalds æfingastaður?

Ég elska að æfa í náttúrunni! Og mér finnst best að gera æfingarnar úti á grasinu með sólina beint í augun! Ég hef alvarlega spáð í því að flytja á hlýrri stað til að fá fleiri vikur á ári í útiæfingar þar sem ég er agaleg kuldaskræfa og ekki séns að ég nenni oft út að gera eitthvað ef það er kalt! En þar sem ég bý á íslandi er ég búin að sætta mig við að gólfið í stofunni er bara einnig nokkuð gott fyrir æfingar.

 

Eru einhver æfingatips sem hafa reynst þér vel?

Ég er alltaf búin að skoða æfinguna daginn áður, græja föt og annað sem þarf til að ég geti byrjað sem fyrst á morgnanna. Þetta er oftast spurning um nokkrar mínútur því það tekur mig 30 mínútur að keyra í leikskólann og svo aðrar tíu til þess að koma mér í vinnuna. Ég nenni ekki á fætur fyrr en sex svo það þarf að ná þessu öllu fyrir klukkan hálf átta.

Ef ég tek æfingu seinni partinn, reyni ég að klæða mig í æfingagallann strax og ég kem heim! Og setja tónlist í eyrun sem fær mig til að dilla mér strax. Ég fæ mér oftast vatnsglas eða hálfan banana fyrir æfingu en annars er ég agalega hrifin af blómkálsbollum sem ég bý til og allskonar mat úr kínóa! Ég er kannski aðeins of löt við að gera tilraunir í eldhúsinu, en það er í vinnslu að breyta því!

 

Eru einhverjar æfingar sem þér finnst erfiðari en aðrar og þarft að aðlaga?

Armbeygjur eru ekki mín sterka hlið! En ég setti mér markmið í vetur að ná ákveðjum fjölda áður en ég fer á hnéin og það hefur ná að halda mér við efnið!

 

Er einhver æfing í sérstöku uppáhaldi?

Ég held að sipp sé uppáhaldsæfingin mín, eða skautahlauparinn.

 

Hvaða áhrif hefur HiiTFiT-þjálfunin haft á mataræðið þitt?

Ég borða lítið af brauði og minna af mjólkurvörum eftir að ég prófaði að taka mjólkurvörurnar úr mataræðinu fyrir um ári síðan og fann mikinn mun. Kínóa og blómkal eru fæðutegundir sem ég er að kynnast á annan hátt en áður og finnst mjög gaman að prufa mig áfram með þær og gera nýja rétti. Og þurrristuð fræ, namm! Þau eru beinlínis góð á allt!

Ég borða einnig mun reglulegar en áður, fæ mér boost um klukkan hálf átta og millimál klukkan tíu. Svo er hádegismatur klukkan tólf, millimál aftur um þrjú leytið og svo að lokum kvöldmatur um klukkan sex. Ég finn að ef ég held reglu á þessu þá er ég ekki að sækja í eitthvað nart. Er voðalega hrifin af hrökkkexi og hummus sem millimál.

 

 

Hvaða áhrif hefur Valkyrjulífið haft áhrif á fólkið í kringum þig?

Ég held að það hafi virkilega góð áhrif á alla í kringum mig. Við fjölskyldan erum farin að gera miklu meira af því að fara út að hjóla og ganga saman, í fótbolta eða á trampólín. Ég er farin að búa til hreyfingu við allskonar aðstæður, tak vini með mér í gönguferðir og upplifi staði sem ég vissi ekki að væru til, en ég hafði lítinn áhuga á þesskonar samveru áður fyrr. Við fjölskyldan vorum til dæmis í heimsókn hjá bróður mínum og mágkonu síðasta sumar og í stað þess að keyra og skoða eitthvað fórum við í langar og skemmtilegar gönguferðir.

                    

Ég held ég sé kraft- og orkumeiri í vinnu, og er pottþétt alveg óþolandi í þar alltaf að blaðra um hreyfingu! Nei grín! Ég vinn á svo flottum stað þar sem ég er umkringd samstarfskonum sem eru allar mjög duglegar að hreyfa sig og fara í gönguferðir um svæðið. Ég er farin að spyrja mikið um leiðir og plana ferðir sem mér hefði ekki dottið í hug að fara í fyrir um ári síðan.

 

Nú er mikið lagt upp úr allskonar hugaræfingum, það að elska sjálfa sig og vera sífellt að vinna að markmiðum sínum. Hvaða ávinning finnur þú af þessum hugaræfingum?

Ég finn að ég er farin að standa meira með sjálfri mér og þora að vera sjálfselsk og segja nei, taka frá tíma fyrir sjálfa mig og sinna því sem heldur mér gangandi. Ég finn meiri kjark og meira þor!

 

 

Hvað myndir þú segja við stelpur og konur sem eru búnar að vera að hugsa um að breyta lífsstíl sínum en eiga erfitt með að taka fyrsta skrefið?

EKKI HUGSA LENGUR – JUST DO IT! Ekki vera hrædd við að geta ekki. Þó svo að þú skráir þig er ekkert sem segir að þú þurfir að fara beint í það að taka fimm æfingar í viku. Byrjaðu á þeim hraða sem þú veist að þú getur haldið þér á. Taktu 2-3 æfingar í viku og hugaræfingarnar með. Settu niður hvað þig langar að fá út úr þessu til langs tíma – hver er framtíðar þú? Ekki reikna með að gera allt strax því þá verða hlutirnir oft of yfirþyrmandi. Finndu þinn takt. Það sem hentar þér er ekki endilega það sem hentar þeirri við hlið þér.

 

 

Hver er þín framtíðarsýn?

Ég vil vera mamman sem stekkur í fótbolta með börnunum án þess að kafna, hoppa á trampólínið án umhugsunar, geri handahlaup og stend á höndum. Ég vil vera hraust og sterk! Ég hef aldrei geta hlaupið en undanfarið ár hef ég verið að mjakast hægt og rólega áfram í því og finn að mér finnst það dásamlegt. Ég elska að geta stokkið í leiki og fíflagang með strákunum mínum, það er nefnilega ekkert grín að halda í við þá. Í dag get ég það og það vil ég ekki missa! Ég hef ekki verið að fara á ógnarhraða í gegnum þetta ferli en það hefur líka haldið mér nokkurn veginn á réttu róli – það er ekki kvöð lengur að hreyfa sig heldur forréttindi!

 

 

 

 

Að lokum…

Ég fór í handahlaup og stóð á höndum í fyrsta sinn í MÖRG ár núna í sumar! Og svo er hugarfarsbreyting svo mikil að ég hélt æfingunum til streitu í sauðburðinum í maí. Þessi tími er oftar en ekki frekar erfiður og lítið um svefn en með góðu fólki og skipulagi gat ég komið inn æfingum, þó svo að ég hafi tekið flestar í fjárhúsunum sjálfum sem var reyndar mjög gaman.

 

Mér er líka orðið alveg sama þó það sé fólk í kringum mig meðan ég geri æfingarnar, áður fannst mér agalegt að hafa einhvern í húsinu og hætti alltaf ef einhver kom inn, en í dag er mér slétt sama. Ég nýti bara tækifærið og fæ manninn minn til að smella af mér mynd af ef hann þarf að þvælast hjá mér. Í vor vorum við að bólusetja kindurnar og mitt eina verkefni var að standa við grind og passa að þær myndu ekki hlaupa með mig í burtu. Svo ég tók bara góða æfingu við grindina, hnébeygjur, armbeygjur, þríhöfðaréttu og teygjur, nýta tímann. Ég finn að það að ég sé alltaf að gera einhverjar æfingar hefur góð áhrif á drengina mína. Þeim finnst gaman að taka þátt og þeim eldri finnst sérstaklega gaman að búa til æfingarprógram fyrir okkur.

Ég hef alltaf haldið að ég væri ekki með mikið keppnisskap en hef komist að því að það er nú bara nokkuð af því í mér!

 

 

 

Breyttu þínum lífsstíl með Valkyrjunum!

Skráðu þig í dag fáðu líka allt efnið frá októbermánuði!