Finnst þér þú óviss þegar kemur að hollu mataræði og finnst þér þú stöðugt vera að neita þér um hluti?

Eða upplifir þú þetta vera erfitt og missir tökin um leið og annríki kemur upp?

Í dag langar mig að deila með þér þeim 3 hlutum sem hjálpuðu mér að ná því jafnvægi og mynda þann lífsstíl sem ég elska, ásamt því að upplifa aldrei eins og ég sé að neita mér um eitthvað eða að pína mig áfram.

Því ég var einu sinni alltaf með mat á heilanum, ég skildi ekkert af hverju ég næði aldrei árangri. Ég keypti öll duftin og brennslutöflurnar sem áttu að skila mér bíkiní líkamanum fyrir sumarið og puðaði í ræktinni 6 sinnum í viku, en ég var aldrei ánægð og datt fljótt í gamla farið.

Það var í rauninni ekki fyrr en ég fór að hugsa þetta upp á nýtt og setja inn ákveðna hugarfarsbreytingu sem hlutirnir fóru að breytast fyrir mig. Þannig ef þú kannast við þetta þá vona ég að grein dagsins hjálpi þér að sjá hlutina í nýju ljósi.

 

1. Ég hætti að horfa á mat sem óvin minn

 

Samband mitt við mat hér á árum áður var frekar óheilbrigt, ég horfði á mat sem eitthvað sem gerði mig feita. Það var ekki fyrr en ég virkilega upplifði hvernig matur hafði áhrif á orkustigið mitt og vellíðan að ég fór að þróa heilbrigðara samband við hann.

Matur er bensínið okkar og við erum það sem við setjum ofaní okkur. Ég hvet þig því til þess að reyna horfa á hann sem orkuna sem við fáum í stað þess að hugsa um “fitandi” vs. “grennandi”, og hugsa frekar:

Mun þessi máltíð gefa mér orku og vellíðan, eða mun mér líða illa eftir hana?

Fókusinn hjá mér er alltaf heilsa, líðan og orka, og þá kemur allt annað heim og saman. Því líkaminn þinn leitast alltaf eftir því að starfa eftir sinni bestu getu og ef við styðjum við hann og gefum honum orkuna, vítamínin og steinefnin sem hann þarfnast þá gerir hann það.

 

2. Ég hætti að vera með boð og bönn

 

Eftir að ég fann hvernig áhrif matur hefur á líkamann og líðan fór ég sjálfkrafa að sækjast í mat sem mér leið vel af. Ég hætti að langa í ruslfæði og nammi því mér leið einfaldlega illa eftir það.

Þegar líkaminn sækist í hollustu upplifir maður ekki eins og maður sé að banna sér eitthvað þegar maður afþakkar ruslfæðið og þegar mér var boðið eitthvað “óhollt”, t.d í veislum eða öðrum uppákomum sem mig langaði í þá gat ég fengið mér samviskubitslaust, því ég veit að smá óhollusta er ekki að fara vera heimsendir né að “eyðileggja neitt”.

Því það er svo mikilvægt að horfa á þetta sem lífsstíl og þú þarft að finna það jafnvægi sem þér hentar og veist að þú heldur út. Ég miða oftast við 80/20%, eða 90/10% regluna og þá ertu í góðum málum.

Það er líka svo mikið af hollum sætubitum sem hægt er að búa til sem skilja mann ekki eftir með bjúg, útþaninn maga og orkuleysi, sjá dæmi hér.

 

3. Ég hætti að hafa kalóríur á heilanum

 

Þetta er mjög umdeilt umræðuefni, en mér fannst ég verða að koma inná það og deila mínum skoðunum. Við vitum í dag að kalóríur eru ekki bara kalóríur, það skiptir máli hvaðan þær koma. 1000 kcal frá hamborgara og frönskum hafa ekki sömu áhrif á líkama þinn og 1000 kcal af grænmeti og ávöxtum t.d

Það er erfitt að borða yfir sig af grænmeti og ávöxtum, og með því að borða holla og hreina fæðu í ákveðin tíma fer líkaminn að segja okkur þegar hann er orðinn fullnægður, við upplifum minni sykurlanganir (eða enga), erum saddari lengur og finnum fyrir vellíðan.

200 kcal

Það á aldrei að vera kvöl og pína að „halda út einhverju ákveðnu mataræði”, því þá ertu alltaf að reiða þig á kúr sem þú gerir í nokkrar vikur og færð síðan leið á, í stað þess að móta langtímavenjur sem þú sinnir alla þína ævi. 

Ég gæti aldrei talið ofaní mig matinn til lengri tíma, ég horfi alltaf á gæðin og hvað fæðan er að gefa mér í staðinn fyrir að horfa á hann hornauga, vigta ofaní mig og takmarka hann.  (Ath ég vil einnig taka fram að það sem hentar mér hentar ekki endilega öllum, og það finnst mörgum gagnlegt að telja ofaní sig kalóríurnar, þó það hafi ekki hentað mínum lífsstíl. 🙂 )

 

Ég gæti líklega haldið áfram endalaust, en ég ætla segja þetta gott í bili í dag. Ég vona að þetta geti hjálpað þér að mynda heilbrigðara samband við mat, því það er svo þreytandi að vera alltaf með það á heilanum hvað er “fitandi” eða “grennandi”. Frekar en að horfa á fæðuna eins og hún er, orkugjafa, og velja að næra þig með þeirri fæðu sem styður við þig og gerir þig heilbrigða.

 

Segðu mér endilega, tengir þú við eitthvað af þessum hlutum sem ég deili hér að ofan?

Hvað hefur þú verið að gera til að tileinka þér heilbrigðari lífshætti?

Heilsukveðja

Sara Barðdal ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi

P.s Síðasti hópurinn frá „Sterkari á 16“ var að klára, sjáðu ummæli hér að neðan frá þátttakendum og ef þú hefur áhuga á að vera með næsta hóp, láttu mig endilega vita með því að skrá þig á biðlistann hérna neðst á síðunni. 😉

 

„Endalausir kostir við þetta, þjálfun er snilld“

Þjálfun er algjör snilld. Endalausir kostir viđ þetta og hef ekki enn fundiđ galla. Það sem stendur uppúr er klárlega frábært pepp frá þjálfara, maður er einhvern veginn meira með hugann við þetta þegar allir eru í þessu saman, kvíði því hálfpartinn að þetta klárist, þetta hefur gengið svo vel hingað til og svo gott að vera með svona frábært utanumhald!

Ég fékk aukna trù à eigin getu, kynntist gòđum æfingum sem eg kem til međ ađ nota àfram og komst loksins af stađ ì daglega hreyfingu. – Björg Eyþórsdóttir

„Hvatning og jákvætt pepp stendur upp úr“

Það sem stendur mest upp úr þessu öllu saman er eftirfylgnin og hvatningin frá þjálfara 🙂 ótrúlegt hvað jákvæð pepp og annað getur gert, þessi hópur er líka frábær og gaman að fylgjast með öllum…. Finnst hálf sorglegt að þetta sé að verða búið ?

Vigtin hjá mér fer líka hratt niður og það hefur bara ekki gerst á svona stuttum tíma áður. – Sara Lind Dagbjartsdóttir

Share This

Áhugavert?

Deildu með vinum!