Við þekkjum það allar að páskarnir einkennast oft af miklu súkkulaðiáti, uppþembu eftir páskaboðin og rútínu sem fer út um þúfur..

Kannast þú við þetta? 

Góðu fréttirnar eru að þetta þarf alls ekki að vera þinn raunveruleiki. Þú hefur alltaf val!   

  

Jafnvægi er orð sem við hjá HiitFit notum mikið bæði í okkar lífi og til að miðla áfram.   

Þín upplifun á ekki að vera sú að þú sért að missa af eða að heilbrigður lífsstíll komi öðrum þáttum í lífinu þínu úr jafnvægi og því er ætlunin ekki að banna þér að njóta. Því það er líka hægt að njóta sín með hollari valkostum..   

  

Hér koma 7 hollráð til þess að gera páskana fulla af notalegheitum, skynsamlegu jafnvægi, orku og vellíðan.  


 

7 páskareglur til að gera páskana enn betri  

 

 

1. Skipulag og skýr markmið!

  

 

Ef þú skipuleggur þig fram í tímann, verslar inn hollan og góðan mat og kemst hjá því að eiga of mikið af sætindum  þá er mun auðveldara að halda góðri rútínu. Fyrir marga virkar vel að gera matarplan og í því getur þú skipulagt matarboð og annað sem þú mætir í. Gott skipulag getur líka sparað pening og tíma og minnkað líkur á matarsóun.  Annað er skipulag fyrir hugann, eða skýrleiki þegar kemur að því hvers vegna þú velur hollari kostinn eða passa að borða ekki alltof mikið.

 

 

Skrifaðu markmið þín niður, því það er gott að minna sig á þau rétt áður en páskarnir hefjast og hvaða áhrif þínar ákvarðanir hafa á þína framtíðarsýn og líðan.

  

 

2. Gæðastundir í fríinu (ekki eingöngu við veisluborðið!)  

 

Gæðastundir á hátíðum tengjum við oft við mat, fjölskyldu og vini.  Það að njóta með fjölskyldu og vinum er frábært, enda þurfum við að hugsa um alla þættina í okkar lífi og finna jafnvægið, okkar ráð til þín er að finna annars konar gæðastundir yfir hátíðina. Finndu eitthvað sem fjölskyldan getur gert saman og notið sem ekki tengist mat. Til dæmis að spila saman, fara í gönguferðir, uppgötva ný söfn eða fara í sund. Þannig getum við aftengt það að gæðastundir á hátíðardögum séu alltaf tengdar mat.  

  

 

3. Södd en ekki að springa!  

 

Hver þekkir það ekki að sitja við veisluborðið og borða svo mikið að maður er að springa úr seddu. Oft leiðir það til þess að maður verður þreyttur og vill helst leggja sig. Það sem gerist er að maður verður orkulaus og þreyttur. Það skiptir ekki bara máli hvað maður borðar heldur líka hversu mikið maður borðar.  

 

  

4. Ekki gleyma holla matnum, grænmetinu & ávöxtunum   

 

Það eru páskar og þú færð þér kannski smávegis páskaegg. En það þarf ekki að þýða að við þurfum að borða óhollt alla daga, allan daginn. Það er jafnvægið sem skiptir máli. Fyrir suma er betra að sleppa eiginlega alveg sykri og búa til sitt eigið nammi án sykurs. Fyrir aðra skiptir mestu máli að passa magnið. Þú þekkir þig og þín mörk best. Veldu vel í búðinni, keyptu hollan mat, ávexti og grænmeti og skipulagðu þig út frá því. Skerðu niður ávextina og settu í skál, frekar en að setja nammi í skálarnar. Þá þarftu að hafa fyrir því að standa upp, opna skápinn og taka ákvörðun um að fá þér nammi, frekar en það sem er beint fyrir framan þig.

Þetta er líka tilvalinn tími til að taka eftir áhrifum matarins á líkama þinn og huga, og á orkuna sem þú hefur yfir daginn. Hér getur þú t.d. bætt við þeirri reglu að á hverjum morgni í fríinu borðir þú hollan morgunmat eða drekkir alltaf einn smoothie eða djús á dag.  

  

 

5. Hreyfðu þig á hverjum degi   

 

Þegar það eru páskar er enn meiri ástæða til að hreyfa sig, því þá borðum við oft mat sem hefur neikvæð áhrif á okkur. Við vitum flest að hreyfing hefur jákvæð áhrif á líkama okkar og líðan. Það er ekki eina ástæðan heldur er mikilvægt að halda í okkar vana. Þú þekkir það kannski að taka pásu, en að pásan verði oft ekki pása… Heimaæfing getur tekið 15-30 mínútur og börnin geta jafnvel tekið þátt. Öll fjölskyldan getur hreyft sig saman. Þið getið farið í göngutúr, öll saman í klifurhúsið eða hvað sem ykkur dettur í hug. Leyfið ímyndunaraflinu að leika hér, hafa gaman og samtvinna gæðastund og hreyfingu.   

   

 

6. Tími fyrir þig!  

 

Taktu frá tíma fyrir þig sjálfa. Það gefur bæði þér og allri fjölskyldunni þinni svo mikið. Það þarf ekki að vera langur tími.. Í raun eru 10 mínútur betra en ekki neitt.

Hvað sem er sem gefur þér tíma til að endurhlaða orkuna. Fyrir suma er það hreyfing, fyrir aðra hugleiðsla, göngutúr, að setjast niður með te eða fara í bað.  .   

  

 

7. Vatn, vatn og vatn!  

 

Við hljómum eflaust eins og gömul plata, en það er ástæða fyrir því að við leggjum mikla áherslu á að drekka vatn. Líkaminn okkar er að stærstum hluta gerður úr vatni og við þurfum nóg vatn til að viðhalda vökvajafnvægi líkamans og eðlilegri líkamsstarfsemi. Drekktu meira vatn og minna af öðrum drykkjum. Þá spararðu líka pening þar sem við erum svo heppin á Íslandi að fá gott vatn beint úr krananum.   

 

 

  Páskar í jafnvægi

 

Ekki fara út í öfgar og banna þér hitt og þetta, heldur leggðu frekar áherslu á jafnvægi.  Finndu út hvað fer illa í þig og reyndu eins og þú getur að sneyða hjá því, en mundu að það er þitt val en ekki blátt bann. Hreyfing er okkur öllum nauðsynleg. Finndu hreyfingu sem hentar þér og þú hefur gaman af.

 

 

Gefðu þér tíma fyrir fjölskyldu og vini og gæðastundir með þeim, og finndu líka tíma fyrir þig sjálfa. Þannig verður streitulosun, andleg og líkamleg velíðan þegar við nærum bæði líkama okkar og huga.

 

 

Share This

Áhugavert?

Deildu með vinum!