,,Hver er þín helsta hindrun þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl?

Þessari spurningu hef ég spurt reglulega inná Instagram og fengið mörg svör til baka. 

  • ,,Ég hef ekki tíma” 
  • ,,Ég finn ekki hvatninguna eða nennuna”
  • ,,Ég er ekki tilbúin”

 

Alls konar útskýringar sem er í rauninni að segja það sama: ,,Ég sjálf”

Við sjálfar erum okkar helsta hindrun, okkar hugsunarvillur, viðhorf og sögur sem við endurtökum í huganum, trúleysi, óöryggi, óvissa o.s.frv. 

En það eru lausnir við öllu! Ég virkilega trúi því. Ef staðfestan og viljinn er fyrir hendi, þá getur þú fundið leið og lausn fyrir þig. 

Hún þarf ekki að líta eins út og hjá vinkonu þinni, frænku eða mömmu. En leiðin er til fyrir þig. Það er bara spurning um að taka ákvörðunina og byrja að leita og gera tilraunir. 

Í dag langar mig að deila með þér 5 algengum mýtum um heilbrigðan lífsstíl og mínum svörum við þeim. 

Ein mest notaðasta er:

 

1. Það er tímafrekt að hugsa um heilsuna og ég hef ekki meiri tíma

 

Við höfum öll sömu 24 klst í sólarhringnum, þetta er bara spurning um skipulag og forgangsröðun. 

Hvað ertu að ákveða að setja í dagskrána þína?

Mundu að allt sem er þarna er af því þú sagðir já við því.  

Þú þarft að taka stjórnina á tímanum þínum aftur, ekki leyfa honum að stjórna þér. 

Hvernig ertu að forgangsraða? 

Ert þú nr. 10 í röðinni og ef það “gefst” tími þá gerir þú eitthvað fyrir þig? 

 

 

Það virkar ekki þannig, þú þarft FYRST að skipuleggja sjálfsumhyggju, hreyfingu eða því sem þú vilt koma inná dagskrána og SÍÐAN sjá hvernig eða hvort þú komir restinni inn. 

Fáðu stuðning eða hjálp frá maka, fjölskyldu eða vinkonum til að hugsa um matinn, ná í krakkana, heimilisstörf, skutla á æfingu eða hvar sem þú þarft á stuðningi að halda. Við þurfum ekki að gera allt sjálfar. 

Segðu meira NEI. Er dagskráin þín er full af kaffihúsa hittingum, löngum símtölum, skrolli á samfélagsmiðlum, þáttaseríum eða saumaklúbbum? 

Finnst þér þú þurfa vera alls staðar, gera ALLT, vera sannkölluð ofurkona?  

Mundu að það er í lagi að segja nei. Það er í rauninni alveg lífsnauðsynlegt í þessu hraða samfélagi sem við lifum inní í dag. 

Segðu meira NEI til þess að segja JÁ við þér. 

Skoðaðu vikuna þína, hvernig ertu að nýta tímann? 

Ég veit að þú getur fundið a.m.k 1 klst á dag fyrir sjálfa þig, hvort sem það þýðir að þú þurfir að vakna fyrr, kveðja netflix í einhvern tíma, facebook, eða hvað sem er. 

Þú getur þetta, tímaleysi er ekki gild afsökun. 

 

 

2. Það er ómögulegt að breyta venjum, ég er eins og ég er.

 

 

Þarna getur ýmislegt verið í gangi, en ef þú ert að segja þetta við sjálfa þig er nauðsynlegt að skoða hugarfarið þitt. 

Hugarfarið er nr. 1, 2 og 3 uppá að gera langtímabreytingar og þess vegna legg ég svo mikla áherslu á hugarfarsþjálfun í öllum námskeiðum HIITFIT. 

Ef þú ert þarna, þá vantar þig að hafa trú á sjálfa þig. Þú ertu að láta tilraunir fortíðarinnar hafa áhrif á nútíðina og framtíðina. 

Þú hefur jafnvel gert margar misheppnaðar tilraunir áður fyrr, en það þarf ekki að þýða að næsta tilraun misheppnist líka. 

Þú hefur kannski bara verið að beita röngum aðferðum, gert of miklar kröfur á sjálfa þig, vantað að gera hugarfarsbreytingu eða ekki haft trúna á sjálfa þig frá upphafi. Þannig að tilraunin var dauðadæmd til að byrja með. 

Hvað ef það væru engar misheppnaðar tilraunir?  

Hvað ef þetta var bara allt saman undirbúningur og lærdómur fyrir þig þannig að þegar þú finnur loksins það sem hentar þér, þá muntu ná árangrinum sem þú óskar þér? 

Horfðu á þetta sem reynslu sem þú hefur sankað að þér og getur lært af. 

Vertu tilbúin að horfa á heilbrigðan lífsstíl nýjum augum og hafðu trú á sjálfa þig. 

Gefðu sjálfri þér séns og horfðu á þetta sem langhlaup. Taktu minni skref í einu og byggðu ofaná þau. Það er betra að nálgast markmiðin sín hægt og rólega frekar en að lenda á vegg og stoppa. 

 

 

3. Að lifa heilbrigðum lífsstíl er leiðinlegt og erfitt

 

Það er það ef þú lifir eftir stöðugum boðum og bönnum, upplifir það hamlandi, velur óspennandi og þurran mat. Það er að sjálfsögðu erfitt ef þú velur hreyfingu sem þér þykir leiðinleg og upplifir þetta sem kvöð frekar en löngun. 

Hérna þarf að vinna með hugarfarið og virkilega skoða viðhorfin gagnvart heilbrigðum lífsstíl. 

Prófaðu að skipta út setningunum:

,,Ég þarf að hreyfa mig” yfir í ,,Ég fæ að hreyfa mig”

,,Ég þarf að borða salatið” yfir í ,,Ég vel að fá mér salatið”

,,Ég þarf að neita mér um allt” yfir í ,, Ég vel það besta fyrir mig”

 

Finnurðu muninn? 

Við verðum að fara hugsa um heilbrigðan lífsstíl sem sjálfsumhyggju og sjálfsagðar venjur af því að okkur þykir vænt um okkur, viljum velja það besta fyrir heilsuna og vera þannig betur til staðar fyrir okkar nánustu. Því þú ert ekki bara að hjálpa sjálfri mér með því að hugsa vel um þig. Þú ert að vera fyrirmynd fyrir þína nánustu, þú ert á koma þér á betri stað, líða betur og ert að stuðla að orkumeira lífi. 

Við gefum ekki úr tómum bolla. Það er því kominn tími til að forgangsraða þér og heilsunni þinni. Það græða allir á hamingjusamari og glaðari mömmu, ömmu, vinkonu, frænku eða vinnufélaga. 

 

 

4. Ef ég lifi heilbrigðum lífsstíl þá þarf ég að neita mér um allt 

 

Horfir þú á heilbrigðan lífsstíl sem það sama og fitness undirbúning?

Það hefur verið gríðarlega góð markaðssetning í gangi sem segir okkur að við þurfum að kaupa öll þessi próteinduft, stangir, endalaust bætiefni, pre-workout og brennslutöflur. Fylgja ströngu mataræði, vera með svipuna á bakinu og alls ekki missa úr æfingu. 

Jújú annars nærðu engum alvöru árangri, erum við ekki öll að fara uppá svið í næstu viku? 

En þetta er ekki rétt. 

Loksins þegar ég áttaði mig á þessu var eins og þungu fargi hafði verið létt af mér. Ég hafði eytt hundruðum þúsunda í þessi duft og töflur sem gáfu mér ekkert nema áframhaldandi sykurlanganir og ströggl í mataræðinu. Þau voru í rauninni að halda mér fastri í heimi átaka og megrunarkúra. 

Þegar ég fattaði loksins að besta uppsprettan á öllum þessum efnum sem ég þarfnaðist eru að koma úr matnum þá fór ég að einbeita mér að því að fá sem mestu næringuna úr mataræðinu mínu og fæðunni sjálfri. 

Þarna opnuðust augun mín og hlutirnir fóru að breytast, ég byrjaði að upplifa svo mikla orku og lífskraft sem ég vissi ekki einu sinni að ég byggi yfir. Ég fann það á líkamanum hvernig fæðan sem ég valdi hefði bein áhrif á andlega og líkamlegu heilsuna mín og ég virkilega vil að allir finni þetta hjá sér. 

Það er ekkert “one size fits allt” mataræði, EN einfalt skref sem þú getur byrjað á og mun hagnast öllum er að bæta við meira af grænu laufgrænmeti og borða mun meira af fæðutegundum úr plönturíkinu eins og baunum, linsum, grófkorni, fræjum, hnetum, öllu grænmeti og ávöxtum. Bara með því að taka þetta skref ertu komin mun lengra heldur en að gera þér ferð útí næstu “prótein búð” og kaupa efni sem eiga að örva brennsluna. 

Heilbrigður lífsstíl snýst ekki um að neita sér um allt, halda “fullkomnu” mataræði og hreyfingarplani alla vikuna og geta loksins “leyft sér” um helgina. 

Heilbrigður lífsstíll snýst um að velja það besta fyrir sjálfan sig meiri hluta tímans. Hlusta á líkamann sinn hverju sinni, læra hvaða fæða gerir þér gott, hvaða fæða fer illa í þig. Hlusta á hvernig hreyfingu þú þarft á að halda núna. Það snýst um að gefa þér pláss fyrir sveigjanleika og mistök. Tala fallega til sín, hugsa jákvætt og bæta sjálfstalið. Hætta öllu niðurrifi og gera sitt besta hverju sinni. Það snýst um að huga að andlegri heilsu, gefa sér tíma fyrir sig, áhugamálin sín og það sem þú elskar að gera. Það snýst um að lifa á sátt og samlyndi við sjálfa sig og virkilega læra að elska þig alla. Það snýst um að læra að setja mörk, ekki láta bjóða sér uppá hvað sem er, geta tjáð tilfinningarnar sínar og vera sönn sjálfri sér.

Heilbrigði nær yfir svo miklu meira en bara hreyfingu og mataræði. Við þurfum að fara horfa á þetta miklu dýpra en áður fyrr, annars munum við halda áfram að ströggla.

Hvaða skref getur þú tekið í átt að heilbrigðara lífi í dag?

 

5. Það er vesen að lifa heilbrigðum lífsstíl

 

Það er vesen að vera veikur, trúðu mér. Það skerðir lífsgæðin þín, rænir orkunni þinni og ef veikindin eru alvarleg þá fer allt lífið að snúast í kringum heilsuna þína og að endurheimta hana aftur.

Er þá ekki betra að stunda góðar forvarnir, setja þig í forgang og virkilega kunna að meta heilsuna þína eins og hún er í dag. Því hún er ekki sjálfsagður hlutur, og ef við tökum henni þannig, þá getur hún ákveðið að fara einn daginn (eða hægt og rólega).

Á hverjum degi getum við valið að færast nær heilbrigði eða fjær. Hvað velur þú í dag?

Það er þess virði að gefa sér tíma í þessa hluti, því heilsan er eitt af því dýrmætasta sem við höfum og oft áttar fólk sig ekki á því fyrr en hún fer að bresta og lífsgæðin skerðast.

Þetta er spurning um hugarfarsbreytingu og 360 gráðu vinnu.

Ef þú ert tilbúin að vinna með þig ALLA ertu mun líklegri til árangurs.

Ef við förum inní þetta ferðalag með neikvætt viðhorf þá erum við að sjálfsögðu ekki vænlegar til að viðhalda breytingunum til lengri tíma litið. 

Hvaða afsökun hefur þú verið að nota hingað til?

Var eitthvað sem þú tengdir við í greininni?

Deildu endilega með mér í athugasemdum fyrir neðan

 

 

Það er kominn tími til að kveðja þessar mýtur um heilbrigðan lífsstíl og segja JÁ við sjálfa þig.

Ertu til í það??

Þú átt skilið að lifa þínu besta og hamingjusamast lífi

 

Heilsukveðja

 

 

ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi 

Taktu þátt í HIITFIT samfélaginu á facebook og fáðu ókeypis innblástur, æfingar og uppskriftir

Ég er með