Valkyrja mánaðarins í desember er einstök kona, sem hefur verið mikil fyrirmynd fyrir okkur hinar og yndislegt að fylgjast með henni. Hún Agnes Björg Arngrímsdóttir er 46 ára, gift og á fjóra frábæra syni, eina tengdadóttur og einn nýfæddan sonarson, sem hún er enn að kynnast. Þau búa í Reykjavík en eru bæði að norðan. Agnes er þroskaþjálfi og leiðsögumaður að mennt og hefur frá árinu 1994 unnið með fólki með fötlun og elskar það starf. Áhugamálin eru ferðalög, lestur, eldamennska, náttúrugöngur og útivera.

 

Agnes hefur í gegnum tíðina prófað ansi margt þegar kemur að hreyfingu og hollu mataræði, verið rosa dugleg og bætt sig heilmikið en alltaf dottið í sama farið aftur. Hún vissi aldrei almennilega hver ástæðan fyrir því væri, fyrr en nú, eftir dágóðan tíma í Valkyrjunum. Það er aldrei of seint að læra eitthvað nýtt um sjálfa sig.

 

 

 Hvernig var andleg og líkamleg heilsa áður en þú byrjaðir í Valkyrjunum?

 

Ég hef alltaf sagt sjálfri mér að ég sé A týpan og orkan sé mest á morgnana og alltaf best að klára æfingu fyrir vinnu þá væri það búið. Semsagt að klára æfingu var bara eitthvað sem ég VARÐ að klára af, svona til að geta hakað í “lokið” í skjalinu. Ég var stundum svo orkulaus, en samt mætti ég. Ég mætti meira að segja einu sinni með mígreni. 

Ég var klassískt allt eða ekkert týpan. Ég var samt ekkert að ná neinum árangri þrátt fyrir píninguna.

Ég hef alltaf reynt að standa mig súper vel, sem tengist hugarfarinu „allt eða ekkert“.

Ég var auðvitað ekkert með nægan sjálfsaga til þess að neita mér um eitthvað sætt. Þá var sykurpúkinn búinn að vinna og helgin vanalega full af sykruðum glaðningum. Á mánudögum byrjaði ég svo alltaf enn á ný og var orðin snillingur í afsökunum fyrir slæmum ákvörðunum. 

 

Andlega líðanin hjá Agnesi var orðin skelfileg

Ég var orðin mjög kvíðin og var farin að finna fyrir þunglyndi. Ég kláraði vinnudaginn og síðan varð ég að hvíla mig, alltaf, alla daga, í tvo- þrjá tíma til að hafa orku í að elda kvöldmat. Heill vetur alveg eins, vinna, hvíla mig, elda, sófi, og upp í rúm til að geta gert það sama aftur og aftur. Ég er með vefjagigt, svo það var ekki alveg að hjálpa til, en kvíðinn og þunglyndið gerði það mun verra.

 

 

 

 

 

Af hverju Valkyrjurnar?

 

Í ágúst 2019 var Agnes búin að fá nóg af sjálfri sér og komin í þá stöðu að vera orðin of þung aftur, orkulaus, verkjuð og alltof oft að fá slæm mígrenisköst. Agnes hafði fylgst með Söru í gegnum HiiTFiT í dágóðan tíma og oft séð auglýsingu um Valkyrjurnar.

„Í mínum huga var ég ekki efni í Valkyrju, enda valkyrjur sterkar og kröftugar. Konur sem geta allt. Ég var svo langt í frá að vera stödd þar, en kannski, mögulega gæti ég átt erindi þangað í „Langtíburtistan“. Ég ákvað þó að prufa að taka 10 daga áskorun með HiiTFiT. Það var fyrsta skrefið í átt að bættri heilsu og öðrum lífstíl.“ Dagarnir liðu hratt og í framhaldi skráði hún sig í Sterkari á 16.

      

Stærsta ástæðan fyrir að ég tók þá ákvörðun var að ég gæti æft heima, þegar ég vildi. Æfingarnar voru fjölbreyttar og skemmtilegar. Það var fullt sem ég gat ekki, en þá var skölun í boði. Mataræðishlutinn var frábær, hollar og flottar uppskriftir sem ég leita í enn í dag. En hreyfing og hollt mataræði er ekki nóg.

Það sem hjálpaði mér mest voru hugaræfingarnar. Það tók verulega á að gera fyrstu æfinguna. Það er/var margt í bakpokanum sem ég hef burðast með allt of lengi, en með æfingunum hef ég losað mig við þessa þessa neikvæðu tilfinningar tengda þessum atburðum.

Það tekur ennþá alveg á að gera æfingarnar segir Agnes, en þær hjálpa svo sannarlega. Þær gefa okkur aðra sýn á málin. Það þarf að vinna vinnuna til að ná árangri. Við erum svo sannarlega það sem við hugsum.

 

Eftir Sterkari á 16 námskeiðið var Agnes ekki tilbúin að hætta og skráði sig ísköld í Valkyrjurnar. Hún var samt búin að ákveða að vera svona ,,silent partner” eins og hún orðaði það. Hún hafði ekki mikla trú á sér (þá) að hún gæti sagt eitthvað af viti, eða hreinlega þorað að opna munninn. Hún er mjög feimin að eðlisfari og var sjálfstraustið ekki mikið. Það leið þó ekki á löngu þar til Agnes fann löngun að deila með samfélaginu hvernig hennar ferðalag var að ganga.

 

– Agnes er mikil fyrirmynd fyrir samfélagið, póstarnir hennar kveikja hjá okkur hinum mikinn innblástur og hún hefur mikla hlýju og kærleik sem skín í gegn í hennar póstum og svörum. Mikið erum við þakklátar að hún ákvað að stíga úr hlutverki þess að vera áhorfandi yfir í að vera þátttakandi í samfélaginu! 

 

,,Það eru auðvitað hæðir og lægðir í lífinu eins og alltaf, en ég gefst aldrei upp. Heldur finn ég annan stíg sem hentar betur en sá sem ég hélt að væri sá rétti fyrir mig.Vefjagigtin og mígrenið er enn til staðar en ég er núna stödd á frekar skrýtnum stað. Ég datt í hálku í mars og lendi illa á hnakkanum og fékk heilahristing. Hef aldrei gefið mér tíma til að vera ,,veik” amk ekki of lengi og arkaði af stað til vinnu viku síðar eða svo. Píndi mig áfram í 10 vikur með allskonar leiðindaeinkenni. Viðurkenndi vanmátt minn í lok júní og er búin að vera í veikindaleyfi síðan í byrjun júlí.

Ég er loksins að leyfa mér að fá hjálp. Ég leyfi mér að vera í forgangi. Áður fyrr nýtti ég orkuna mína til að geta haft heimilið og fjölskylduna í lagi en hafði svo ekkert í afgang fyrir mig. Self-care isn ́t selfish er sagt og það á vel við.“

 

 

Hvernig hefur Valkyrjusamfélagið breytt þinni daglegu rútínu?

 

Breytingar í mataræði

 

Ég sæki í léttari mat, hef oftar grænmetisrétti og finnst frábært að fá mér einn boost á dag, helst um miðjan daginn þegar gamla ég hefði sótt í eitthvað sætt til að fá orku. Jafnvægi er lykillinn og hann er ekki auðfundinn, en það er í lagi, þetta er spennandi ferðalag.

Það sem mér finnst svo frábært með Valkyrjurnar, er að vera hluti af yndislegu samfélagi. Ég læri ekki bara af efninu sem við fáum mánaðarlega frá Söru og Sylviu, heldur erum við duglegar að deila með hvor annarri inni á samfélaginu, og það kveikir á hugmyndum, eitthvað sem við myndum annars ekki prófa.

 

 

Breytingar í hreyfingu

 

Það sem æfingarnar í Valkyrjunum eru svo fjölbreyttar þá er ekki séns að fá leið á að gera þær. Dans er einnig í boði og ég elska að dansa.

Ég er orðin sterkari, ég get gert meira og lengur, en það var aldrei markmið mitt hér áður fyrr. En nú hreyfi ég mig og gef mér tíma til að hreyfa mig af því að ég vil það. Ég elska að svitna og live æfingarnar eru hvetjandi. Ég finn fyrir miklu þakklæti page3image3835808ég elska að gera æfingarnar; ég elska að hreyfa mig og finna aukin styrk. Ég elska að vera ekki að hugsa lengur ég VERÐ að hreyfa mig til að missa kg/cm. Hreyfing gefur mér orku og hamingjuhormón. Ef dagurinn er ekki góður, og orkan á lágu plani er hægt að velja rólegar æfingar eða gönguferðir. Það er ekkert rangt í Valkyrjunum. Við erum svo ólíkar og með ólík markmið. Það er eitt sem gott er að hafa í huga, Valkyrjurnar eru allar í sinni vegferð á sínum forsendum.

 

 

Ég skipulegg líka hreyfinguna betur. Ég tel mig vera komin með skothelda leið í skipulagningu. Ég sest niður á sunnudögum og skrifa niður í dagbók allt það sem ég ætla mér að ná yfir vikuna.

 

Í byrjun hvers dags kíki ég yfir hvaða atriði ég ætlaði mér að ná og vinn mig niður listann. Þetta eru atriði eins og hugaræfing, hugleiðsla, æfingar og rútínur. Það skiptir mig máli að standa með sjálfri mér og að standa við gefin loforð.

 

 

Breytingar á hugarfari

 

Þarna hefur verið mesta breytingin á mér. Hausinn getur verið versti óvinurinn. Ég get ekki, hef ekkert hér að gera, verð alltaf svona o.s.frv. eru gamlar og rótgrónar hugsanir. Það getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja en með hugaræfingunum hef ég lært að setja mig í forgang, að vita að ég er nóg og það sem er mikilvægast að ég læri að velja það rétta fyrir mig til að komast nær markmiðum mínum en ekki fjær. Hver ákvörðun sem við tökum skiptir máli.

Ég leita í hugleiðslu meira en ég gerði, en ég hef lengi vitað hvað það skiptir máli. Í dag er það að hugleiða markvissara. Ég sæki mikið í náttúruna og hef alltaf gert. Það er ákveðin hugleiðsla að eiga góðan göngutúr í Heiðmörkinni eða í fjörunni við Gróttu.

Mér finnst ég líka vera með sterkari sjálfsmynd og læt vaða í að gera æfingu á stöðum sem mér hefði aldrei dottið í hug fyrr, því það væri of mikið út fyrir kassann. Sem dæmi að gera útiæfingu eða hugleiða fyrir framan annað fólk 🙂

Ég er einnig að prófa mig áfram í sköpuninni. Að teikna, mála og skrifa. Mér tókst meira að segja að prjóna teppi fyrir barnabarnið. Eitthvað sem ég taldi mig ekki geta gert, lítil rödd innra með mér sagði mig ekki geta málað, teiknað og prjónað. Eitthvað sem ég heyrði sem lítil stelpa var allt í einu að birtast sem púki á öxlinni á fullorðinni konu.

 

 

Fólk & samskipti

 

Ég hugsa að mesta breytingin sem fjölskyldan sér á mér er að ég set mig loksins í forgang, er farin að segja nei þegar ég meina nei og að það sé meiri ró yfir mér. Ég deili alveg með þeim því sem ég er að læra. Hugleiðslan hefur einnig hjálpað fleiri fjölskyldumeðlimum. Ég hugsa að þeir taki líka sérstaklega eftir öllum mini- ævintýrunum sem ég tek upp á og dreg þá með mér í. 🙂 Uppskriftirnar eru vel nýttar og allir græða á að borða hollara.

Ég er líka orðin heiðarlegri við þá sem eru að hjálpa mér. Að koma hreint fram í stað þess að segja alltaf ,,allt fínt”.

 

 

Hvað hefur þú upplifað helst seinustu mánuði í Valkyrjusamfélaginu?

 

Orku, kraft og heiðarleika.

 

Við komum hreint fram og segjum bara eins og er. Við megum líka vera bara við sjálfar og ég upplifi mikinn stuðning. Það er gott að fá stuðning frá þeim sem eru í svipuðum sporum og maður sjálfur. Það er einnig mikilvægt að gefa stuðning og sýna skilning. Við erum mjög ólíkar, og ekkert endilega á sama stað í heilsuferðalaginu en það breytir engu, við erum til staðar fyrir hvor aðra.

 

Það sem ég elska líka með Valkyrjurnar eru áskoranirnar. Þær halda manni á tánum. Sara og Sylvia eru svo hugmyndaríkar og það er aldrei dauð stund. Ég hef tekið nokkrar ævintýraáskoranir sem dæmi, og ég elska að búa til mini-ævintýri fyrir mig og fjölskylduna. Þakklætisáskorun er líka nauðsynleg, bara það að vakna á morgnana og vera þakklátur fyrir það sem við höfum, breytir hvernig við nýtum hvern dag.

 

Hvaða hindranir hefur þú komist yfir?

 

Það er helst að sigrast á púkunum í hausnum sem vilja ekkert endilega það besta fyrir mig. Það tekur alveg á að vera í veikindaleyfi, ég tala nú ekki um í þessu ástandi sevið erum að upplifa. Að ég sé heima að vinna í mér þegar allir hinir eru að halda öllu á floti í vinnunni. Að hafa loksins trú á mér að ég geti. Þetta er mitt ferðalag og ég er farin að sættast við að fara 1 skref áfram og stundum 2 afturábak. Það er mikilvægt stundum að sleppa tökunum og treysta.

 

 

Hvað er besta heilsuráðið sem þú hefur lært í Valkyrjusamfélaginu og myndir deila til annarra?

 

Ekki að gefast upp, það koma dagar sem eru erfiðir og það er í lagi. Ég leyfi þeim að koma og nýti þá í self-care, hugaræfingu, hugleiðslu eða gönguferðir. Það er líka í lagi að vera ekki 100 %, fullkomnunaráráttan er ekki að fara að koma mér neitt.

 

 

Hver er þín uppáhalds minning eða móment á þessum tíma?

 

Það er mjög erfitt að finna einhverja eina ákveðna minningu eða móment. En hugsa að ævintýra-febrúar sé dálítið í uppáhaldi. Það kviknaði á einhverjum neista innra með mér í þeim mánuði. Ég hef alltaf haft gaman að skipuleggja óvissuferðir í gegnum tíðina og þarna fékk ég heldur betur útrás. Ég hef eftir þetta nýtt það til þess að skapa aftur og aftur mini-ævintýri fyrir mig sjálfa eða fjölskylduna. Ég tók m.a mini-ævintýravetrarfrí núna í október. Fjölskyldan spilaði saman hreyfibingó, fór í Laugardalinn og gekk í gegnum Völundarhúsið, starði í stjörnurnar í myrkrinu við Hafravatn og margt fleira.

Það er yndislegt að skapa minningar saman og ekki verra að njóta þess að hreyfa sig saman.

 

 

 

Hvað mundir þú segja við konur sem eru búnar að vera að hugsa um að breyta lífsstíl en eiga erfitt með að taka fyrsta skrefið?

 

 

Fyrsta skrefið er alveg erfitt, en trúðu mér, Sara og Sylvia eru boðnar og búnar að taka næstu skref með þér. Betri stuðningsaðila er erfitt að finna. Það er dásamlegt ferðalag framundan ef þú tekur skrefið. Stelpurnar í samfélaginu eru hvetjandi, frábærar fyrirmyndir og bara hreint út sagt yndislegar. Ég hlakka til að sjá þig í samfélaginu 🙂