Valkyrjurnar eru 2 ára!

Ég er ótrúlega stolt af þessu samfélagi! Að hafa sett upp og haldið heilsusamfélagi gangandi á netinu í tvö ár hefur verið skemmtilegt ferðalag fullt af áhugaverðum áskorunum og lærdómi.

 

En af hverju að stofna svona samfélag?

 

Jú ég sá aftur og aftur að þegar kom að því að breyta um lífsstíl þá er ekki nóg að taka 1 mánaða námskeið og fjarþjálfun því það tekur einfaldlega tíma að breyta venjum og skapa eitthvað sem endist. Þetta ferðalag er fullt af hæðum og lægðum og þegar maður er staddur í lægðunum þá er svo mikilvægt að hafa stuðninginn og hvatninguna til þess að halda áfram og komast upp hæðina.

 

Ég fór í þennan bransa til þess að hafa áhrif, ég vil ekki taka þátt í megrunarkúrum og átökum og það er ástæðan fyrir því að ég skapaði þjónustu sem er til staðar allt árið um kring. Þar sem konur geta komið inn og fengið stuðninginn, tólin og fræðsluna sem þær þurfa til þess að ná árangri.

 

En hvað stendur uppúr fyrir mig á þessu ferðalagi?

 

Ég tók saman 9 atriði sem ég hef lært síðustu 2 ár sem mig langaði að deila með þér í dag.

 

 

  1. Við verðum að læra að biðja um stuðning

 

 

Ef þú biður ekki um aðstoð, þá eru litlar líkur á að þú fáir hana. Að rétta upp hönd og viðurkenna að þú þurfir stuðning þarf oft hugrekki. En það er nauðsynlegt skref ef maður er ekki á góðum stað. Konur þurfa að æfa sig að biðja um aðstoð, alltof oft erum við með þær kröfur á okkur að geta gert allt sjálfar. En það getur enginn gert ALLT einn og því fyrr sem við áttum okkur á því, því betra.

 

Þær sem taka skrefið alla leið, deila með okkur, biðja um stuðning og hvatningu, þær fá lang mest útúr samfélaginu. Þær fá allt það besta útúr prógramminu, því það er virkilega rétt að það sem þú leggur út færðu margfalt til baka.

 

 

  1. Við verðum að forgangsraða OKKUR

 

Ég upplifði þetta aftur og aftur hjá mér persónulega og konunum í samfélaginu. Ef við gefum okkur ekki tíma til að endurnæra, hvíla og endurhlaða batterýin, þá kemur það niður á okkur og umhverfinu.

 

Ef ég gef mér ekki tíma fyrir mig, til að hreyfa mig, næra mig vel, huga að andlegu hliðinni með hugleiðslu og annarri vinnu, þá kemur sá tímapunktur að ég get lítið gefið frá mér. Þetta skiptir ótrúlega miklu máli því það bitnar ekki bara á fólkinu í kringum mig heldur vinnunni minni líka. Mitt starf er að gefa, styðja og vera innblástur fyrir aðra, þannig ég þarf að taka því alvarlega að gefa sjálfri mér það sem ég þarfnast, því annars get ég ekki unnið starfið mitt mjög vel.

 

Þetta á við okkur allar! Ekki bara þjálfara.

 

Ert þú að taka þessu alvarlega í þínu lífi? Ertu að setja sjálfa þig aftast í forgangsröðina?

 

 

  1. Að halda uppi stemningu og fjöri gerist ekki að sjálfum sér

 

Að halda utanum lifandi hóp allan ársins hring er ekki eins auðvelt og það hljómar. Það koma hæðir og lægðir, virkni fer upp og niður. Það er hlutverk okkar þjálfaranna að vera virkar og skapa umræður. En það er einnig hlutverk þátttakandana í samfélaginu að taka þátt, pósta sjálfar og halda virkninni gangandi. Því annars skapast ekki þessi samfélagsumgjörð sem við viljum ná fram. Ábyrgðin er allra og það er því gulls í gildi að fá góða þátttakendur sem vilja skapa og halda samfélaginu gangandi með okkur. Það eru alls ekki allir þar og þær sem eru ekki fyrir að deila sjálfar, svara og kommenta hjá öðrum eru oft þær sem endast ekki eins lengi í samfélaginu og detta út.

 

 

  1. Þú getur eignast góðar vinkonur í gegnum netið

 

Ég hef haft mínar efasemdir um að mynda náin tengsl í gegnum netið, en síðustu ár hef ég kynnst og eignast ótrúlega góðar vinkonur í gegnum netið og samfélagið. Þetta er frábært tól til þess að umkringja sig fólki sem þú hefðir annars ekki hitt í þínu nánasta umhverfi. Fólk sem býr erlendis eða útá landi til að mynda kemur saman í hóp þar sem við styðjum hvor aðra, deilum áskorunum og sigrunum okkar. Þetta getur myndað nána og persónulega stemningu og tengsl sem endast út lífið. Þar sem ég bý sjálf erlendis hefur samfélagið líka hjálpað mér persónulega að tengjast íslenskum konum og halda ákveðnum tengslum við landið. Margar konurnar hafa verið með í samfélaginu frá upphafi og mér finnst þær vera stór partur af daglega lífinu mínu. Það gefur mér mikla gleði að vita af þeim og fá að vera partur af ferðalaginu þeirra.

 

  1. Að vera í góðu umhverfi og réttum félagsskap skiptir sköpun uppá langtímaárangur

 

Að vera einn útí horni endist yfirleitt ekki lengi þegar kemur að því að breyta um lífsstíl. Við erum félagsverur og það að geta fengið hvatningu, pepp og stuðning frá annarri konu á sama ferðalagi er gulls í gildi þegar slæmu dagarnir banka uppá. Ég hef séð þetta persónulega hjá sjálfri mér hversu mikilvægt er að geta fengið pepp frá vinkonu eða bara að fá að opna sig og deila því hvað er í gangi hjá manni. Í samfélaginu eru margar hughreystandi stelpur sem eru alltaf til í að hvetja og styðja hvor aðra.

 

 

  1. Að skapa efni sem hentar öllum er ómögulegt en…

 

Það getur verið áskorun að búa til efni sem allir geta nýtt sér, en það eru þó ákveðnar þemur sem ég sé að allir geta nýtt sér og eru algengar áskoranir sem margar konur glíma við. Eins og að læra að forgangsraða sjálfri sér, byggja upp meira sjálfstraust, setja inn meiri sjálfsumhyggju, að læra að elska sig eins og við erum, læra betri markmiðasetning og byrja að hafa trú á sjálfa sig.

Þróun æfinganna síðustu mánuði hefur einnig verið í þá áttina að æfingarnar orðnar fjölbreyttari, við erum með meira útval af byrjendaæfingum, low intensity og minni hopp þannig að allir geti fundið eitthvað fyrir sig. Breytingin sem átti sér stað í lok síðasta árs hefur einnig reynst ótrúlega vel þar sem heimasvæðið er orðið að sannkölluðu bókasafni af heimaæfingum, fræðslu um mataræði og uppskriftum, hugaræfingum og hugleiðslum þannig að allir finni eitthvað fyrir sig.

 

 

  1. Nýsköpun er gríðarlega mikilvæg í þessum bransa

 

Við þurfum sífellt að þróa og vera að koma með nýjungar til þess að halda samfélaginu spennandi og fersku. Ef of mikil endurtekning á sér stað þá fáum við oft leiða og missum áhuga. Okkur finnst því mikilvægt að halda sífellt áfram að þróa efnið okkar, breyta til því sem er í gangi í samfélaginu okkar, uppfæra heimasvæðið og áherslurnar. Nýlega fengu stelpurnar aðgang að appi og fengu glæsilega uppfærslu á heimasvæðinu í leiðinni.

 

 

  1. Þú byggir ekki samfélag ein

 

Þetta er ekki eins manns verkefni. Það sem er öðruvísi við Valkyrjusamfélagið er að þetta er ekki þetta hefðbundna námskeið eða fjarþjálfun. Þetta er lifandi samfélag þar sem stelpurnar eru með okkur yfir langan tíma og sumar hafa verið með frá upphafi. Þær eru partur af Valkyrjufjölskyldunni og mér finnst ég þekkja margar þeirra vel. Það er ekki nóg að þjálfararnir séu að peppa allt árið um kring, þó svo að það sé stór partur af því líka. En þá þurfa þátttakendur líka að taka þátt og verður samfélagið í rauninni aldrei betra en þátttakendur þess og það sem þær leggja inní það sjálfar. Það hefur því farið mikil pæling og hugsun í hvernig við getum gert okkar part til að virkja stelpurnar og fá þær til að taka frumkvæði. Það er mjög gefandi og skemmtilegt starf að hvetja fólk til að stíga út fyrir þægindahringinn sinn og prófa eitthvað nýtt.

 

 

  1. Að viðhalda samfélaginu krefst stöðugrar vinnu og markaðssetningu

 

 

Þessi punktur kom í lokin þar sem ég vildi vera alveg hreinskilin í dag. Að viðhalda samfélaginu gangandi krefst athygli, fókus og vinnu. Ég nýt þess í botn, ég er ekki að kvarta, enda er þetta vinnan mín. En með tímanum þá detta stelpur út og til þess að samfélagið minnki ekki og minnki þá þarf stöðugt að vera fá inn nýjar stelpur til þess að halda fjöldanum uppi. Í upphafi gerði ég mér ekki grein fyrir hvað liggur á bakvið að halda svona samfélagi lifandi í svona langan tíma, en þetta hefur verið ótrúlega þroskandi og skemmtilegt ferðalag. Það hefur ekki verið án hindrana og áskoranna, en ég horfi á allt sem lexíur og nota erfiðleikana sem tækifæri til að vaxa og verða betri manneskja.

 

 

Ég hef svo mikla trú á því sem við erum að gera því ég hef séð það aftur og aftur hvað konur hafa fengið mikið útúr þátttöku sinni í Valkyrjusamfélaginu. Einnig gefur þetta okkur þjálfurunum ótrúlega mikið persónulega þar sem við lifum fyrir að hjálpa öðrum konum breyta lífinu sínu og upplifa meiri hamingju og gleði.

 

Ég er spennt fyrir nýju starfsári Valkyrjanna og hlakka til að kynnast nýjum konum á næstu mánuðum.

 

Vilt þú prófa að vera með??

 

Næstu helgi (28 feb-1 mars) munum við vera með frábært 2 ára tilboð fyrir þær sem langar að prófa að vera með í samfélaginu þannig ef það ert þú fylgstu þá endilega með á samfélagsmiðlum. Þetta verður svo sannkallað tilboð ársins þar sem við viljum gefa öllum tækifæri á að prófa og upplifa ávinninga þess að vinna með huga, líkama og sál í góðum félagsskap.

 

Mundu að þú átt skilið að lifa þínu besta lífi…

 

Þangað til næst

 

Heilsukveðja